146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[02:03]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því skrefi sem hér er stigið í fyrsta sinn á vorþingi, þ.e. að afgreiða fimm ára fjármálaáætlun. Það eru tímamót. Það er sögulegt í þinginu. Þrátt fyrir ágreining um efnisatriði áætlunarinnar hefur okkur tekist að fara í gegnum umræðu og ljúka henni í þessari atkvæðagreiðslu. Það hefur verið tekist á um bæði tekju- og gjaldahliðina. Á tekjuhliðina eru stórfelldar skattahækkanir boðaðar af minni hlutanum, stigvaxandi frá 30 upp í 50 milljarða á ári á síðari hluta áætlunartímabilsins. Því er stjórnarmeirihlutinn algerlega mótfallinn. En síðan er tekist á um hversu mikið útgjöldin eigi að vaxa en þau eru sannarlega að vaxa. Það er vegna þess að okkur hefur tekist að ná tökum á ríkisfjármálunum. Við erum að lækka ríkisskuldirnar, búa í haginn fyrir framtíðina, bæta í öll málefnasvið. (Gripið fram í.) Ekki ætti að vera ágreiningur hér í þinginu um það að við lifum uppbyggingarskeið þótt mörgum finnist að við ættum að fara (Forseti hringir.) hraðar yfir. En það er eitt af því sem við ætlum að fara eftir úr umsögnum um þessa áætlun að menn mega ekki fara of geyst ef þeir ætla að hugsa um hagsmuni heildarinnar.