146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Fyrst varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns þá bara man ég það ekki. Ég verð að játa að ég man ekki nákvæmlega (Gripið fram í.) — nei, ég efast um það, en ég eins og ég segi ég man ekki hvernig ég greiddi atkvæði þegar þetta mál fór hér í gegnum þingið. Sú niðurstaða sem þar varð var einhvers konar málamiðlun ef ég þekki það rétt. Ég held að þar hafi togast á mismunandi sjónarmið að mörgu leyti. Niðurstaðan í þessu máli var einhvers konar málamiðlun.

Varðandi önnur atriði sem hv. þingmaður nefndi held ég að rétt sé að hafa í huga að umsækjendur um stöðuna eða aðrir borgarar þessa lands gátu fyrir fram ekki haft neinar væntingar um að einhverjar tilteknar reiknireglur dómnefndarinnar hefðu eitthvert gildi. Það sem menn geta lesið í lögum og reglum er að tillaga um dómaraefni skuli byggja á heildarmati þar sem meðal annars sé horft til starfsreynslu, menntunar o.s.frv. í upptalningarliðum. En það að gera ráð fyrir því að einhverjar vinnureglur nefndarinnar, sem hvergi hafa verið birtar og ég hef ekki séð fyrr en í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd — að einhverjir hafi sótt um á þeim forsendum eða haft réttmætar væntingar á þeim forsendum, er ekki rétt.

Staðan er sú að þegar ráðherra, og það hefur ráðherra rökstutt, gerir sína tillögu þá reiknar hún með auknu vægi dómarareynslu, ekki eingöngu dómarareynslu. Það er enginn umsækjandi metinn út frá einhverjum einum forsendum, en ráðherra rökstyður niðurstöðu sína með því að hún telji rétt að gefa meiri gaum reynslu manna af störfum við dómstóla. Tillagan lýsir sér þá í því að (Forseti hringir.) þeim sem er bætt við, miðað við niðurstöðu matsnefndarinnar, eru einstaklingar sem hafa ekki nokkurra ára reynslu heldur áratugastarfsreynslu við héraðsdómstóla.