146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að við deilum um margt lífssýn og deilum því vissulega að það eigi að vanda til verka og vanda vinnubrögð. Það þýðir samt ekki að við hv. þingmaður séum alltaf sammála um það hvort vinnubrögð hafi verið vönduð eða ekki og ég er hræddur um að það sé ekki bara uppeldislegur munur á mér og hv. þingmanni heldur líka auðvitað á pólitískri sýn okkar, enda er hún ekki sú sama, við erum fulltrúar úr sínum flokki hvor.

Þegar ég ræddi um mikilvægi þess að vanda til verka og undirbúnings á nýju dómstigi þá átti ég auðvitað ekki við bara það eina atriði hvort Alþingi notar neyðarhemil til þess að samþykkja eða hafna tillögu hæstv. ráðherra um það hverjir sitji í viðkomandi rétti, heldur undirbúning á þessu dómstigi öllu og Landsrétti. Þar hefur Alþingi sýnt mjög (Forseti hringir.) góð vinnubrögð og unnið mjög vel og lengi að því. Ég sætti mig við þá vinnu (Forseti hringir.) sem Alþingi hefur viðhaft síðustu daga, en ég (Forseti hringir.)veit að við hv. þingmaður erum ekki sammála um það.