146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé af mjög ríkri ástæðu að í þau fáu skipti sem Alþingi kemur að ráðningu einstaklinga — ég hef einu sinni áður tekið þátt í slíku þegar verið var að staðfesta endurráðningu á umboðsmanni Alþingis — að sú atkvæðagreiðsla fari fram leynilega vegna þess að ég tel mjög slæmt að teknar séu pólitískar ákvarðanir um einstakar ráðningar og einstaka einstaklinga. Þess vegna þykir mér mjög vont að umræðan hér í dag hafi farið niður á það stig að ræða einstaka umsækjendur sem eru annaðhvort á lista hæstv. ráðherra eða ekki. Mér finnst það aðalatriði gagnvart umsækjendunum að þeir hafa allir verið metnir hæfir til þess að sitja í dómstólnum.

Ég endurtek það sem ég hef sagt hér nokkrum sinnum að ég tel ekki ástæðu til þess að gefa ráðherra rauða spjaldið (Forseti hringir.) fyrir rökstuðning sinn. Ég veit að ekki er allt Alþingi sammála um þá afstöðu.