146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:19]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hélt að ég hefði sagt það alveg skýrt að hefði listinn verið þannig hefði ég ekki stutt hann. Það er ekkert flókið við það. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því og hugsa um að mat dómnefndarinnar er ekki óbrigðult og ekki óumdeilanlegt. Ég er þeirrar skoðunar að ráðherra hafi haft hagsmuni dómstólsins í heild í huga þegar hún lagði til breytingar sínar. Þær fela að mínu mati í sér mjög jákvæðar breytingar hvað varðar kynjahlutföllin. Ég ítreka að allir þeir sem metnir voru hæfir eru mjög hæfir til þess að gegna dómarastöðum og margir af þeim sem lentu fyrir neðan 15 manna markið eru dómarar með áratugareynslu (Forseti hringir.) í héraðsdómi. Ég bendi á það.