146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert út á tilfæringarnar að setja sem jöfnuðu kynjahlutfallið. En það voru fleiri tilfæringar. Í rökstuðningi við þær tilfæringar endaði hæstv. dómsmálaráðherra á að segja að við yrðum að hefja okkur yfir excel-skjölin. Ég tel það ekki vera nægilega góðan rökstuðning. Ég tel að það verði að koma eitthvert hugtak á borðið sem segir af hverju, ekki bara að við verðum að hugsa út fyrir kassann. Kannski koma þar inn félagsstörf eða eitthvað annað sem faglega nefndin gæti notað til að meta einhvern hæfari, þ.e. nefndin sem við treystum til þess að fara með hæfnismatið og raða einum umfram annan. Þó að allir séu hæfir er samt einn hæfari en annar. Það þarf að útskýra (Forseti hringir.) þegar óhæfari umsækjandi er valinn, af hverju. Ég skal taka undir þann (Forseti hringir.) rökstuðning þar sem verið er að jafna kynjahlutfallið, en varðandi hina sem færðir eru til (Forseti hringir.) vantar rökstuðning.