148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[19:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í nefndaráliti 3. minni hluta að tryggingagjaldið væri ekki lækkað í þessum tillögum. Ég trúði því varla þannig að ég fletti aðeins og það virðist vera rétt, að það sé ekki lækkað. Ég hugsaði þá með mér að í kosningabaráttunni hefði verið talað svo mikið um að lækka tryggingagjaldið og mig langar aðeins að fjalla um það, sér í lagi í samhengi við svokölluð kosningaloforð. Mig langar hins vegar ekki endilega til að gagnrýna aðra flokka fyrir að standa ekki við sín kosningaloforð eins og er stundum kallað heldur langar mig frekar að gagnrýna aðeins fyrirbærið sjálft.

Í seinustu kosningabaráttu gerðum við Píratar ákveðna tilraun. Við tókum fjárlagafrumvarpið eins og það lá fyrir í október, settum það inn í töflureikni, skoðuðum það og breyttum tölum eftir okkar áherslum, eftir því sem okkur langaði að leggja til. Markmiðið með þessu var í fyrsta lagi að sýna fram á hvað okkar tillögur myndu kosta og hvernig við myndum fjármagna þær en sömuleiðis að bjóða upp á samtal við aðra flokka, við almenning og hvern sem er, enda vorum við tiltölulega skýr eða ég vona að við höfum verið eins skýr og mögulegt er. Þetta voru hins vegar ekki kosningaloforð, þetta voru tillögur til umræðu háðar breytingum eftir aðstæðum o.s.frv. Við gáfum okkur ákveðnar forsendur. Við gáfum okkur t.d. þá forsendu að það yrði slaki í hagkerfinu á næstunni. Það virðist vera að rætast, en sú forsenda hefði getað breyst og ég vona að við höfum verið alveg skýr með þetta.

Eitt af því sem ég man að kom til umræðu á stórum fundi þar sem við stóðum nokkrir píslarvættir úr hinum ýmsu flokkum fyrir framan hóp af fólki var lækkun tryggingagjalds. Við vorum eðlilega öll spurð að þessu. Allir úr öðrum flokkum á þessum tíma voru spurðir: Vilt þú lækka tryggingagjaldið? Viðkomandi sagði alltaf: Já, ég vil lækka tryggingagjaldið, þar á meðal þeir flokkar sem þá voru í ríkisstjórn. Allir voru til í þetta nema Björt framtíð svaraði eitthvað óskýrt eins og ég upplifði það á þessum fundi og ég sömuleiðis vegna þess að ég hafði gert ráð fyrir því, í einfeldni minni, að lækkun tryggingagjalds væri í frumvarpinu sem við vorum að tala um. Við höfðum gert okkar breytingartillögur við það frumvarp og ég gerði því ráð fyrir að innifalið í okkar breytingum væri lækkun tryggingagjalds.

Svo kom frétt í Viðskiptablaðinu og annars staðar um að allir vildu lækka tryggingagjaldið nema Píratar. Ég fer að reyna að leiðrétta þetta og kemst að því í samtali við blaðamann — hálfkjánalegt, en svona er það stundum — að það var engin lækkun á tryggingagjaldinu boðuð í frumvarpinu þrátt fyrir að allir stjórnmálamenn vildu það. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja þessum ágæta blaðamanni. Gott og vel, ætli fréttin sé þá ekki sönn eftir allt saman, en þá vekur forvitni mína að sjá ekki núna í þessu frumvarpi lækkun tryggingagjalds.

Ég hugsaði með mér: Heyrðu, ég bara legg þetta til sjálfur, og fór að reikna aðeins og komst að því að það er óheyrilega dýrt að lækka tryggingagjaldið, hvort sem það er almenna eða atvinnuleysistryggingaliðinn, samkvæmt mínum mjög frumstæðu útreikningum um 7,4 milljarðar fyrir 0,5%. Það er svakaleg upphæð. Ég fór að velta fyrir mér að stinga kannski upp á 0,1%. Svo velti ég fyrir mér: Nei, bíddu, við lofuðum þessu ekki, við sögðumst ekkert ætla að gera þetta. Allir hinir sögðust ætla að gera það, ekki við. Svo átti ég samtal við nokkra samþingsmenn hérna niðri og þeir bentu mér réttilega á að kannski ættum við frekar að einbeita okkur að því að reyna að fá meiri pening í heilbrigðiskerfið og eitthvað svona. Auðvitað er það alveg rétt.

Þetta minnti mig á það þegar ég stóð fyrir framan þvöguna af fólki sem heimtaði lækkun tryggingagjalds, það er svo auðvelt að segja bara: Já. Það er svo auðvelt fyrir stjórnmálamanninn að segja: Já, auðvitað vil ég lækka tryggingagjaldið. En það er ekki í þessum tillögum. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýndi það réttilega í minnihlutaáliti sínu. Ég er ekki alveg með það á hreinu sjálfur hvort ég er að gagnrýna eða ekki en mér finnst alveg þess virði að tala um þetta vegna þess að þegar við erum í kosningabaráttu og erum spurð svona spurninga verðum við að mínu mati að geta sagt kannski bara ekki, kannski ætla ég ekki að lækka tryggingagjaldið.

Þetta er meira hugvekja en gagnrýni. Við erum að nálgast lok 2. umr. og þetta mál heldur væntanlega áfram í nefnd á milli 2. og 3. umr. Ég geri ráð fyrir að í það minnsta komi breytingartillögur, það er ekki útséð með það. Mér fannst þess virði að nefna það að þegar kemur að þessum málum eigum við í kosningabaráttu ekki að freistast til þess að segja hluti sem við vitum ekki hvernig við eigum að standa við. Það er heili punkturinn á bak við það sem við gerðum í okkar kosningabaráttu. Við tókum gögn sem þegar voru til og breyttum þeim í samræmi við okkar vilja og lögðum þau fram sem tillögur, ekki loforð heldur tillögur, út frá einhverju sem annað fólk gat þá skoðað og gagnrýnt eða komið með breytingartillögur við eða hvaðeina.

Þetta var fyrsta tilraun. Kosningabaráttan var eins og byrjunin á þessu kjörtímabili, öll á milljón. Hún átti sér stað með stuttum aðdraganda og var öll gerð í óttalegu óðagoti, held ég, hjá öllum flokkum. Það útskýrir ýmislegt sem fór úrskeiðis þar en þetta er tilraun sem ég er þó stoltur af að við höfum gert. Ég veit að Viðreisn fór í svipaðan leiðangur. Ég sá aldrei töflureiknisskjal frá þeim, en ég vona að það hafi komið út einhvern tímann. Það eru vinnubrögðin sem ég tel að við eigum að tileinka okkur í framtíðinni þegar við erum að ræða við hóp af fólki um hluti sem er auðvelt að segja já við, hóp sem heimtar eitthvað, að við séum með tölurnar fyrir framan okkur, staðreyndirnar, og getum sýnt fram á um hvað við erum að tala þannig að spurningin sé ekki lengur: Vilt þú lækka tryggingagjaldið? heldur: Hvert er tryggingagjaldið í tillögunum? Nú, tryggingagjaldið er hérna í tillögunum. Ókei. Hvað með að hafa það svona eða hinsegin? Og þá er hægt að segja: Já, þá þurfum við að gera hitt eða þetta. Þá er hægt að halda áfram einhverju vitrænu samtali um þær breytingar sem við viljum gera. Það væri miklu ábyrgari kosningabarátta að mínu mati.

Að þessu leyti er ég stoltur af þessari tilraun þrátt fyrir, eins og ég segi, óðagoti og ýmsan misskilning sem átti sér stað af minni hálfu gagnvart fjárlögum í kosningabaráttunni. Mér finnst að við eigum að fara meira í þessa átt og minna í það að tala um fjármál ríkisins eins og þau séu bara háð vilja hvers og eins þingmanns. Sem betur fer er það ekki þannig að hver og einn þingmaður eða hver og einn formaður eða viðmælandi hvers og eins flokks ráði því hvernig útgjöld ríkisins verða. Auðvitað á það aldrei að vera þannig. En ef við ætlum að sýna ábyrgð í hinum svokallaða loforðaflaumi gagnvart kjósendum þurfum við líka að sýna hvernig við ætlum að axla hana. Það getur falist í þeirri ábyrgð að segja stundum: Nei, eða: Ég veit það ekki, eða: Hérna er það sem ég er með, gefið mér tillögur eða eitthvað því um líkt, frekar en einfaldlega að kinka kolli og segja alltaf: Já.