148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og breytingartillögum þess minni hluta á þskj. 97. Eins og hér hefur komið fram gagnrýna fulltrúar Samfylkingarinnar harðlega fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Að okkar mati ber fjárlagafrumvarpið vott um svik við kjósendur og algjört metnaðarleysi þegar kemur að fjárfestingum í velferðarkerfum þjóðarinnar. Enda lýstu langflestir ef ekki allir hagsmunaaðilar sem komu á fund fjárlaganefndar miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið.

Það er mjög mikilvægt að hér á landi sé bæði tryggður efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki. Þetta fjárlagafrumvarp gerir því miður hvorugt. Hvorki er ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né er ráðist í nauðsynlega tekjuöflun fyrir hið opinbera sem rétt er að gera á þessum tíma uppsveiflunnar. Það skiptir einnig miklu máli að hér séu stunduð ábyrg ríkisfjármál á sama tíma og þörf fyrir opinbera fjárfestingu er sinnt. Hætt er við að þegar hægir á í efnahagslífinu muni tekjur ríkissjóðs ekki duga til að fjármagna núverandi útgjöld. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að líta á bæði gjaldahlið frumvarpsins og tekjuhliðina.

Því til viðbótar kemur upp mjög áhugaverð mynd þegar þetta fjárlagafrumvarp Vinstri grænna er borið saman við fjárlagafrumvarpið sem sú ríkisstjórn sem sprakk í haust lagði fram. Það frumvarp hafa fulltrúar Vinstri grænna kallað „hægri sveltistefnu“ og „ömurlegt“, með leyfi forseta. Hins vegar kemur í ljós að einungis átti að gera 2% breytingu á útgjöldum ríkisins milli fjárlagafrumvarpa og hefði sú breyting numið heilum 0,64% af landsframleiðslu, sem er óralangt frá kosningaloforðunum sem eru ekki eldri en sjö vikna gömul.

Afar fá merki er að finna um stefnubreytingu eða sérstakar tillögur sem ætla mætti að kæmu vegna áhrifa velferðarflokks innan ríkisstjórnarinnar. Innkoma Vinstri grænna í ríkisstjórn og áhrif þeirra á ríkisfjármálin eru því afar takmörkuð og ber að harma það. Við í 1. minni hluta gagnrýnum sérstaklega skort á velferðaráherslum í þessu frumvarpi.

Tillögur meiri hlutans áttu að mæta þeim óskum sem við heyrðum í fjárlaganefndinni. En nú kemur í ljós að meiri hluti fjárlaganefndar, fulltrúar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ætla að gera heil 0,2% breytingu á frumvarpinu. Ef litið er til heilbrigðismála ætlar meiri hlutinn í fjárlaganefnd að setja 0,05% af ríkistekjunum aukalega í heilbrigðismálin. Er þetta stórsókn? Er þetta fjárfestingin í heilbrigðismálum sem hér hefur verið kallað eftir ítrekað? Auðvitað ekki. Það sér hver maður. Þetta er engin talnaleikfimi, þetta eru bara tölur, bara prósentutölur sem valda gríðarlega miklum vonbrigðum. Þess vegna svíður undan gagnrýninni hjá Vinstri grænum.

Hér er ekki lengur um að ræða 2% frumvarp heldur 2,2% frumvarp. Það er nú allt og sumt. Þess vegna hef ég spurt: Til hvers var nú barist, kæru vinir í Vinstri grænum? Til að ná 2,2% breytingu á frumvarpi sem þið kölluðuð „ömurlegt“, „hægri sveltistefnu“, byggt á ríkisfjármálaáætlun sem þið kölluðuð „spennitreyju“? Þetta er gríðarlegt metnaðarleysi og árangursleysi.

Hér ætla ég aðeins að tæpa á helstu gagnrýnisatriðum sem lúta að frumvarpinu. Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi upptalning á því sem aflaga fer í fjárlagafrumvarpinu eða þeim breytingum sem æskilegt væri að gerðar yrðu á frumvarpinu.

Í fyrsta lagi vekur athygli við lestur fjárlagafrumvarpsins að ekkert er tekið á misskiptingunni í samfélaginu. Ég er búinn að fara með þessa tölfræði áður og mun fara með hana þangað til við lögum hana. Núna eiga 5% af ríkustu landsmönnum næstum jafn mikið af hreinum eignum, eigin fé, og 95% landsmanna. Stækkum aðeins hópinn. Tökum ríkustu 20%, einn fimmta. Þeir eiga 90% af hreinni eign samfélagsins samkvæmt skattframtölum. Þið sjáið hvað misskiptingin er mikil. Það er ekkert tekið á þessu. En fyrir kosningar talaði Vinstrihreyfingin – grænt framboð um að það þyrfti að taka á þessari ótrúlegu misskiptingu í gegnum skattkerfið. Í fjárlagafrumvarpinu er það ekki gert. Skattstefna sem þjónar best þeim tekjuhæstu verður einnig ofan á í stjórnarsáttmálanum. Þar er lögð áhersla á lækkun tekjuskatts sem gagnast fyrst og fremst tekjuhærri hópunum, þ.e. eftir því sem tekjurnar verða hærri. Það segir sig sjálft. Og til viðbótar hafa verið reifaðar hugmyndir um að vernda fjármagnseigendur frá verðbólgu vegna fjármagnstekjuskattsins, vernd sem launafólk hefur ekki. Við eigum eftir að sjá útfærslu á því atriði.

Enn og aftur eru það auðlindagjöldin, veiðigjöldin. Þau eru 1,2% af tekjum ríkisins. Þetta eru gjöld sem við innheimtum frá útgerðarfyrirtækjum fyrir að nota okkar sameiginlegu auðlind. Við eigum þessa auðlind, íslenska þjóðin. Það stendur í lögum. Þetta er sameign þjóðarinnar. En hins vegar fáum við bara 1% af okkar tekjum, ríkisins, í gegnum veiðigjöld. Þetta gengur ekki til lengri tíma.

Það er þjóðarskömm hversu mörg börn búa við óviðunandi aðstæður á Íslandi en talið er að allt að 6.000 börn líði skort í okkar ríka samfélagi. Takið eftir, við erum ellefta ríkasta þjóð í heimi. Við erum ekki fátæk þjóð en gæðunum er svo sannarlega misskipt. Tekjur heimila, bæði laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Þrátt fyrir það hefur barnabótakerfið fengið að grotna niður undanfarin ár sem er afskaplega miður því barnabætur eru mjög góð leið til að aðstoða ungar fjölskyldur í landinu. Sé hins vegar litið á fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur kemur í ljós að barnabætur eru nákvæmlega jafn háar og fyrirhugað var í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem byggði á hægri sveltistefnu að mati Vinstri grænna. Það er ekkert sett í barnabætur. Hvorki í upprunalega frumvarpinu né hjá meiri hluta fjárlaganefndar. Sömuleiðis er engu bætt í fæðingarorlofið milli frumvarpa. Það er svo augljóst að þá sitja málefni fjölskyldufólks á hakanum með nýrri ríkisstjórn.

Við sjáum að kaupmáttur hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er í dag um 40% lægri en á árinu 2007. Hér er svo sannarlega verk að vinna.

Við í Samfylkingunni munum leggja fram tillögu um að auka barnabætur um 3 milljarða króna. Þá gefum við stjórnarflokkunum tækifæri til að standa við stóru orðin um að endurreisa barnabótakerfið. Ég vil endilega biðja fólk um að fylgjast með hvernig Vinstri grænir greiða atkvæði þegar sú tillaga verður borin upp.

Það er sömuleiðis staðreynd að húsnæðiskostnaður er hlutfallslega mjög hár af tekjum þeirra sem minnstar hafa tekjurnar. Sé hins vegar litið til vaxtabótakerfisins þá er staðan enn verri en sú sem sést í barnabótakerfinu því um helmingur þeirra sem nutu vaxtabóta þegar Samfylkingin var síðast í ríkisstjórn er dottinn út úr kerfinu. Þeir þykja hafa of sterka eignastöðu, sem er fáránlegt eins og hér hefur verið rakið.

Samkvæmt umsögn ASÍ hafa eignarviðmið eða eignarskerðingarmörk vaxtabóta einungis hækkað um 12,5% og bótafjárhæðir hafa verið óbreyttar frá árinu 2010 á sama tíma og fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 90%, almennt verðlag hefur hækkað um 23% og launavísitala hefur hækkað um tæplega 70%. Þetta gerir það að verkum að vaxtabótakerfið styður við sífellt færri heimili. Virkilega tekjulágt fólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu, 20%, fær sama og engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið. Aftur ætlum við að gefa stjórnarflokkunum tækifæri til að leiðrétta þetta. Við leggjum fram breytingartillögu um að setja 2 milljarða, sem eru engin ósköp, og við höfum alveg efni á því, get ég sagt ykkur, aukalega í vaxtabætur til að endurreisa þetta kerfi.

Því til viðbótar er ekki gert ráð fyrir framlögum til hækkunar á bótafjárhæðum húsnæðisbóta. Það lýtur að stöðu leigjenda. Þannig að það er engin aukning í húsnæðismálin á milli fjárlagafrumvarpa sem þó eru eitt brýnasta úrlausnarefni stjórnvalda. Við vorum öll sammála um það í kosningabaráttunni. En það er ekki sett meira í stofnframlögin til að tryggja byggingu almennra íbúða. Við gefum stjórnarflokkunum tækifæri til að standa við orð sín og leggjum til að settir verði 2 milljarðar í stofnframlög til almennra íbúða til að mæta þeim vanda sem blasir við og kemur engum á óvart.

Lítum á heilbrigðismálin. Samfylkingin telur gríðarmikla þörf á að styðja vel við alhliða uppbyggingu á hinu opinbera heilbrigðiskerfi. Við viljum huga sérstaklega að mönnun og álagi starfsfólksins en takið eftir að samkvæmt nýrri skýrslu OECD er Ísland neðst allra evrópskra OECD-ríkja þegar kemur að hlutfallslegu fé til innviðauppbyggingar í heilbrigðisþjónustu. Næstneðst er Rúmenía. Við sinnum ekki þeirri innviðauppbyggingu sem ég og hæstv. heilbrigðisráðherra vorum svo sannarlega sammála um fyrir aðeins sjö vikum. Við erum alltaf í einhverjum plástrum og reddingum og núna getum við ekki einu sinni mætt hófsömum kröfum Landspítalans. Kem að því rétt á eftir.

Heildaraukningin í öll sjúkrahús landsins átti að vera um 3 milljarðar kr. sem er einungis 0,35% af tekjum ríkisins. Það er stórsóknin. Heilsugæslan fær 3% hækkun milli frumvarpa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta fær enn minni hækkun eða 0,6% milli fjárlagafrumvarpa og í tilviki hjúkrunar- og dvalarrýma, takið eftir, er lækkun milli ára. Það fengum við staðfest hjá fjárlaganefnd.

Röksemdafærsla meiri hlutans um að þetta verði leiðrétt í fjármálaáætlun heldur engu vatni. Þá töpum við sömuleiðis heilu ári. Það ber að harma.

Landspítalinn kom til fjárlaganefndar og staðfesti að hann vantar tæplega 3 milljarða til að halda í horfinu. Hann er ekki að boða neina sókn eða nýja, öfluga þjónustu, bara að halda í horfinu. 3 milljarðar eða 2,7.

Hvað gerist síðan? Meiri hluti fjárlaganefndar ákveður að setja hvað í Landspítalann? Núll. Það kemur ekkert frá meiri hluta fjárlaganefndar eftir alla þessa vinnu. Landspítalinn fær ekki krónu eftir umfjöllun fjárlaganefndar.

Lítum aðeins á heilbrigðisstofnanir úti á landi. Í umsögn frá Sjúkrahúsinu á Akureyri kemur fram að það vanti 400 milljónir til að halda í horfinu. Hvað leggur meiri hluti fjárlaganefndar til? 50 milljónir. Við höfum efni á 400 milljónum. Af hverju mætum við ekki vanda Sjúkrahússins á Akureyri? Sömuleiðis heilbrigðisstofnanir úti á landi, þær kölluðu: Það vantar um 1 milljarð til að halda í horfinu og tryggja óbreytta starfsemi gagnvart landsbyggðinni í heilbrigðismálum. Jú, meiri hluti fjárlaganefndar setur 400 milljónir. Auðvitað fagna ég hverri einustu milljón sem ég næ að kría út sem fer í heilbrigðiskerfið. En þetta er bara helmingur þess sem þarf til að halda sjó. Ég endurtek: Af hverju göngum við ekki alla leið? Ég er talsmaður ábyrgra ríkisfjármála og get sagt ykkur það að ríkissjóður fer ekki á hausinn við að mæta þessum kröfum.

Þjóðin er að kalla eftir þessu, hún kallar eftir auknum peningum í heilbrigðiskerfið. Það er ekki eins og ég sé að biðja meiri hlutann að gera eitthvað gríðarlega óvinsælt. Ég er að biðja hann um að gera eitthvað sem yrði gríðarlega vinsælt. Þess vegna átta ég mig ekki á þessari pólitík og forgangsröðun.

Það er áframhaldandi sveltistefna gagnvart heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni sem við í Samfylkingunni hörmum sérstaklega.

Ég kom aðeins inn á það áðan að það var sláandi á fundi fjárlaganefndar að hlusta á fulltrúa hjúkrunarheimila þar sem þeir lýstu sinni bágbornu stöðu. Auðvitað veit ég að það er ekkert nýr vandi. Ég veit að það er ekki hægt að gera allt fyrir alla. Ég er alls ekki að tala fyrir því. En gerum alla vega eitthvað. Eitthvað er meira en 2,2%, það liggur í skilgreiningu þess orðs að mínu mati. Aftur eru vonbrigðin svo mikil.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir framlagi til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu eins og fyrirheit hafa verið gefin um. Nýtt greiðsluþátttökukerfi tók gildi þann 1. maí en samkvæmt því greiða almennir notendur að hámarki tæplega 70 þús. kr. á ári sem er umtalsvert meira en þær 50 þús. kr. sem fyrirheit voru gefin um við afgreiðslu breytinganna á Alþingi árið 2016. Samfylkingin telur að greiðsluþátttaka einstaklinga sé nú þegar of mikil í heilbrigðisþjónustunni. Við viljum minnka hana í áföngum. En engin skref í þá átt eru tekin hér að þessu sinni.

Að lokum varðandi heilbrigðismálin þá staðfestu fulltrúar velferðarráðuneytisins á fundi fjárlaganefndar að enn eru gerðar aðhaldskröfur á heilbrigðisstofnanir þrátt fyrir stórsóknina svokölluðu. Landspítalinn fær 330 millj. kr. aðhaldskröfu frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Þessi ríkisstjórn dregur ekki einu sinni til baka aðhaldskröfuna, hvað þá að fara í þá innspýtingu sem við vorum öll sammála um og þjóðin er sammála um, hvar sem hún stendur í pólitík.

Við munum leggja til breytingartillögu um hækkun útgjalda til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu, sem myndi fyrst og fremst gagnast Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri, um 3 milljarða kr. til að mæta þeirri ósk sem stofnanirnar tefldu fram á fundi nefndarinnar. Sömuleiðis viljum við mæta þeirri ósk sem heilbrigðisstofnanir úti á landi settu fram og við höfum lagt fram tillögu um að setja 500 milljónir til þeirra stofnana sem myndi tryggja óbreytta og viðunandi þjónustu úti á landi. Af hverju er það ekki gert? Við sjáum til. Kannski munu stjórnarflokkarnir sjá að sér og ýta á já-hnappinn. Ég get fullyrt að hér mun samfélagið ekki fara á hliðina við það.

Sömuleiðis er tillaga frá okkur um að útgjöld til heilsugæslunnar verði aukin um 400 milljónir.

Lítum aðeins á menntamálin. Ég ætla að einblína á framhaldsskólana því ég veit að háskólinn er tiltölulega sáttur og því ber að fagna sem vel er gert, að sjálfsögðu geri ég það og vil hrósa hæstv. menntamálaráðherra fyrir að tryggja aukna fjármuni til háskólanna. Ég þekki það sem fyrrverandi kennari þar að það skiptir miklu máli og ég vona að hún haldi áfram í þeirri sókn. En varðandi framhaldsskólana má gera betur. Við fengum fulltrúa þaðan sem sögðu: Framhaldsskólarnir eru komnir að þolmörkum. Það gengur ekki. Komnir að þolmörkum þrátt fyrir þá aukningu sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þetta er eitthvað sem ég hvet hæstv. menntamálaráðherra að taka til sín og ég veit að hún gerir það.

BHM bendir í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið á að það nauðsynlegt sé að efla rannsóknir á mörgum sviðum og segir að „fjármagn til rannsókna er af of skornum skammti og þeir styrkir sem eru í boði t.d. frá rannsóknarsjóðum of fáir og of lágir“. Að þessu þurfum við líka að huga, að rannsóknum.

Því til viðbótar mun Samfylkingin svo sannarlega vakta mjög vel þetta stóra loforð ríkisstjórnarflokkanna um að fjármögnun háskólastigsins muni ná meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og síðan Norðurlandanna 2025. Ég get svo sannarlega fullyrt að Samfylkingin verður samferða hvaða flokki sem vill tryggja að þessum markmiðum verði náð. Þau kosta peninga og þá skulum við bara tryggja að þeir fari í þennan mikilvæga málaflokk.

Samgöngurnar. Það er augljóst að þau framlög sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir til samgangna og fjarskipta nægja ekki þeirri þörf sem fyrir er í landinu. Ég veit að við erum öll sammála um það. Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa lýst áhyggjum af ástandinu og við sjáum að samgönguáætlun er enn vanfjármögnuð þrátt fyrir það sem kemur inn með frumvarpinu og frá meiri hluta fjárlaganefndar. Það vantar enn þá u.þ.b. 7 milljarða. Samfylkingin er tilbúin að leggja fram tillögu um að auka útgjöld til samgangna um milljarð. Það hjálpar.

Lítum á mál sem er núna mikið í umræðunni og hefur verið rætt m.a. að frumkvæði hv. þm. Samfylkingarinnar, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Í skugga valdsins: #metoo. Það kom fram við umfjöllun fjárlaganefndar um frumvarpið að þegar búið er að draga frá uppbyggingu á upplýsingakerfi, uppfærslu á einhverjum tölvuhugbúnaði o.s.frv. fengi aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota um 180 milljónir. Ríkisstjórnin er því einungis að verja — aftur kemur hér tölfræði — 0,02% af tekjum sínum í þetta mikilvæga verkefni, sem eru nú engin ósköp. Ríkið hefur úr 840 milljörðum að spila. Ég veit að þarfirnar eru miklar. En hér er um mjög brýnt verkefni að ræða. Samfylkingin mun því leggja fram tillögu um að setja 800 milljónum meira í þetta átak sem m.a. mun stuðla að fjölgun lögreglumanna sem skiptir miklu máli.

Milljarð í stórsókn gegn ofbeldi er það sem Samfylkingin lofaði fyrir kosningar og milljarð í stórsókn gegn ofbeldi mun Samfylkingin standa við.

Varðandi aldraða. Enn og aftur eru þeir látnir sitja á hakanum. Það staðfesti nú Félag eldri borgara á fundi fjárlaganefndar. Samfylkingin áréttar að hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 25 þús. kr. í 100 þús. kr. er breyting sem við fögnum en hún gagnast þó einungis þeim ellilífeyrisþegum sem hafa atvinnu og hafa atvinnutekjur umfram þessi tekjuviðmið. Það eru einungis um 14% ellilífeyrisþega sem hafa yfirleitt atvinnutekjur og af þeim aðeins þriðjungur sem hefur tekjur yfir þessum mörkum. Aðgerðin mun því ekki gagnast tekjulægstu lífeyrisþegunum auk þess sem breytingin mun skila sér betur til karla en kvenna enda eru þeir fleiri í þessum hóp og með hærri atvinnutekjur. Til að bæta kjör þeirra sem hafa lægstar tekjur af lífeyri ætti að koma til skoðunar að hækka bótafjárhæðir almannatrygginga og/eða draga úr almennu skerðingarhlutfalli ellilífeyris sem nú er 45%. Hér vil ég minna á að 40% aldraðra er undir framfærslumörkunum. Þetta er ekki afmarkaður hópur. Eldri borgarar eru að mig minnir 42.000 manns í þessu landi, 40% þeirra lifa undir framfærslumörkum. Aftur: Við erum ellefta ríkasta landi heimi. Það er svo sláandi að þetta er ekki rétt forgangsröðun.

Landssamband eldri borgara benti á að þetta frumvarp sé, með leyfi forseta: „ekki heldur í neinu samræmi við öll kosningaloforðin“. Það skorar á ríkisstjórnina að gera, með leyfi forseta: „nauðsynlegar breytingar á frumvörpum sem nú liggja fyrir Alþingi og varða þessi mál. Stjórnvöld eiga að bretta upp ermarnar fyrir kjósendur og eldra fólk í landinu.“

Ég tek undir þessa áskorun. Brettið upp ermarnar fyrir eldri borgara í landinu. Við leggjum fram tillögu um að útgjöld til aldraðra verði aukin um 1,5 milljarða.

Öryrkjar eru sömuleiðis hópur sem hefur allt of lengi verið vanræktur af stjórnvöldum. Sama hvaða ríkisstjórn hefur verið, við skulum líta bara á það. Þetta er hópur sem við vanrækjum allt of oft og allt of mikið. Því miður verður lítil breyting þar á með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Það er brýnt að bæta kjör öryrkja, einfalda almannatryggingakerfið gagnvart þessum hópi með sambærilegum hætti og var gert með þá sem njóta ellilífeyris. Við þurfum að leggja áherslu á starfsgetu og endurhæfingu o.s.frv., gera það í sátt og samvinnu við Öryrkjabandalagið og vinna okkur frá vandanum sem er hjá þessum hópi sem stendur hvað veikast fjárhagslega í samfélagi okkar. Það er pólitískur vilji hjá öllum flokkum til að gera betur. En gerum þá betur. Við gerum það í Samfylkingunni og leggjum fram tillögu um að setja 3 milljarða aukalega í útgjöld til öryrkja.

Að lokum varðandi síðustu breytingartillöguna okkar. Ísland stærir sig af því að vera bókaþjóð. Hins vegar hefur bókaiðnaður á Íslandi átt högg undir að sækja. Ein leið til að styrkja þennan iðnað er afnám virðisaukaskatts af bókum. Nú þegar eru vissar vörur og þjónusta án virðisaukaskatts. Við erum ekkert að flækja kerfið eins og sumir í samfélaginu tala um, það sé ekki hægt að gera svona breytingar því þær flæki svo kerfið, nei, þær gera það ekki. Við erum með þrjú þrep núna sem við getum stuðst við. Samfylkingin mun því gefa stjórnarflokkunum tækifæri til að styðja — og nú lít ég til hæstv. menntamálaráðherra — það að afnema virðisaukaskatt á bókum frá og með næstu áramótum. Það verður gaman að sjá hvernig hún greiðir atkvæði hvað þetta varðar.

Nú er ég búinn að kynna breytingartillögur Samfylkingarinnar um að spýta aðeins í og þær kosta, ég átta mig á því. Ef við leggjum saman viðbótarútgjöld og lækkun skatta vegna okkar tillagna eru heildaráhrifin á ríkissjóð um 18 milljarðar. Við ætlum að tvöfalda það sem Vinstri græn ætla að setja í velferðarmálin. Tvöföldun. Við ætlum að gera það og það er hægt að gera miklu betur. Það er augljóst að við erum ekki að leggja fram fullmótað fjárlagafrumvarp eins og við hefðum gert ef Vinstri græn hefðu nú starfað með okkur. Þau höfðu val um að starfa með vinstri blokkinni en kusu að fara með hægri blokkinni. Það ber að minna sérstaklega á það. Það er röng söguskýring að það hafi verið fullreynt að mynda ríkisstjórn vinstra megin frá miðju. (Gripið fram í: Það er þín söguskýring.) Það er mín söguskýring, já.

Þess vegna legg ég áherslu á að hefðum við verið í ríkisstjórn hefði fjármögnun annarra og fleiri verkefna að sjálfsögðu komið til greina.

Tekjugrunnurinn þarf auðvitað að vera í lagi. Lítum bara á hvaða tekjuhugmyndir hafa verið fyrir hendi. Við erum núna í dag eða vorum að greiða atkvæði um í morgun að ekki ætti að hækka kolefnisgjaldið eins og til stóð. Það eru 2 milljarðar sem ríkisstjórn Vinstri grænna er að afsala sér. Þessir 2 milljarðar hefðu farið langleiðina með að mæta þörfum Landspítalans. Hún afsalaði sér þeim í morgun. (Gripið fram í.) ASÍ hefur bent á að það að tryggja auknar tekjur af erlendum ferðamönnum gefi ríkissjóði um 18 milljarða. Við erum að leggja til 18 milljarða kr. útgjaldaaukningu sem við hefðum vel getað fjármagnað án þess að hækka skatta á venjulegt fólk í landinu. Mér finnst ég ekki vera óábyrgur eða ósanngjarn að segja að við höfum efni á að fara í þessa velferðaruppbyggingu eins og við vorum og erum öll sammála um, rétt fyrir kosningar a.m.k., að gera.

Svo mætti hækka fjármagnstekjuskattinn meira að mínu mati. Auðlindagjöldin hef ég komið inn á. Það má fara að huga að því að hækka þau. Takið eftir að á fimm ára tímabili borgaði sjávarútvegurinn sér 50 milljarða í arð. Á sjö ára tímabili var sjávarútvegurinn með hagnað upp á 300 milljarða. Að sjálfsögðu eiga auðlindagjöld að hækka. Þeir eru að nota auðlind sem við eigum öll.

Auðlegðarskatturinn hefur verið ræddur. Að sjálfsögðu á hann að vera tæki til að auka jöfnuð og afla tekna. Við sjáum þröngan og lítinn hóp Íslendinga sem er rosalega ríkur. Þetta fólk hefur alveg efni á að greiða meira til samneyslunnar. Það fer ekkert á hliðina við það, hvorki fjárhagur þeirra né samfélagsins.

Tekjuleiðirnar eru svo sannarlega fyrir hendi. Þær eru bara ekki nýttar. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í þessum ræðustól: Tryggjum tekjugrunn ríkissjóðs svo hægt sé að setja fjármuni í heilbrigðiskerfið. Þetta er nokkurn veginn bein tilvitnun. Gerum það þá.

Ég tel gagnrýni Samfylkingarinnar á þetta frumvarp sanngjarna. Svigrúmið er fyrir hendi, tekjuleiðirnar eru fyrir hendi að mæta þeim þörfum sem blasa við í velferðarmálum, menntamálum, málefnum eldri borgara, öryrkja o.s.frv. Að ná einungis 2% eða núna 2,2% breytingu, ég er sanngjarn, á fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar sem Vinstri græn útmáluðu sem hægri sveltistefnu fyrir nokkrum vikum er skelfilegur árangur. Barnafólk, millitekju- og lágtekjufólk, sjúklingar, aldraðir og öryrkjar og í raun allur almenningur er því illa svikinn af fjárlagafrumvarpi Katrínar Jakobsdóttur. Þá eru tekjumöguleikar hins opinbera illa nýttir og bitnar það á nauðsynlegri uppbyggingu innviða í samfélaginu. Fjárlagafrumvarpið, með þeim smávægilegu breytingum sem nefndin gerir, er því langt í frá að svara kalli landsmanna um frekari fjárfestingu í meginstoðum samfélagsins og er órafjarri því sem Vinstri græn lofuðu fyrir kosningar.