148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárlög til ársins 2018 í 2. umr. Ég ætla fyrst og fremst að ræða vinnubrögðin og hagstjórnaráhrif þessara fjárlaga og vinnuna í kringum þau og stefnuna, eða það sem mér finnst vera umtalsverður skortur á langtímastefnu eða yfirsýn í lykilmálaflokkum í lykilútgjaldamálum ríkissjóðs.

Byrjum á vinnubrögðunum: Það hefur verið nefnt oftar en flest annað, í umræðu um fjárlagavinnuna, hversu knappur tíminn hafi verið. Það er alveg rétt, hann er mjög knappur. Það er alveg klárt að við þurfum að geta unnið eftir lögum um opinber fjármál þó svo að tíminn sé knappur, þó svo að kosið sé að hausti, sem gerist nú í annað sinn. Benda má á í því samhengi að sum nágrannalönd okkar, t.d. á Norðurlöndunum, kjósa á haustin og vinna samt sem áður eftir þeim ramma sem fjárlagavinnu er settur. Þar er einfaldlega tekið við fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar og unnið með það og gefinn góður tími í að móta stefnu og sýn nýrrar ríkisstjórnar.

Ég horfi aðeins á nokkra einfalda þætti. Það er í fyrsta lagi á hreinu að þetta fjárlagafrumvarp brýtur gegn gildandi fjármálastefnu. Það breytir því ekkert þó að lögð hafi verið fram ný fjármálastefna. Hún hefur ekki verið rædd. Hún hefur ekki verið samþykkt. Hún hefur ekki fengið nauðsynlegar umsagnir. Ég held að við eigum ekkert að gera lítið úr mikilvægi fjármálastefnunnar sem slíkrar. Þar mótar ný ríkisstjórn sýn sína á ríkisfjármálin og ramma þeirra til næstu fimm ára og þar er um leið hægt að taka umræðuna um hagstjórnarleg áhrif af ríkisfjármálunum og fá mat utanaðkomandi aðila eins og fjármálaráðs. Það höfum við ekki til grundvallar í umræðu um þessi fjárlög. Hér er einfaldlega spólað af stað í miklum flýti og það meginviðmið þverbrotið.

Það sama má segja um fjármálaáætlun. Enn og aftur eru þessi fjárlög þvert á gildandi fjármálaáætlun. Ég ber fulla virðingu fyrir því og hef skilning á því að það er ekki fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. En það er sú fjármálaáætlun sem í gildi er. Þegar vanda á til vinnubragða í fjárlagagerð er einmitt verið að horfa á fjármálaáætlunina sem lykilþátt þar sem framkvæmdarvaldið leggst yfir einstaka málaflokka, mótar meginútgjaldaáherslur á vandaðan hátt og fær nægan tíma til vinnunnar; leggur síðan fram fjárlög hvers árs á grundvelli þeirrar áætlunar. Þar er hægt að móta heildarsýn á einstaka málaflokka. Hér er einfaldlega spýtt í á ýmsum sviðum án tillits til gildandi fjármálastefnu eða gildandi fjármálaáætlunar.

Það verður að segjast eins og er að mér finnst asi nýrrar ríkisstjórnar svo mikill í þessum efnum að það er eins og hún hafi ekki trú á því að henni endist aldur til að vinna eigin fjármálastefnu með eigin fjármálaáætlun og gefa sér þá kjörtímabilið til þess að ná fram markmiðum sínum. Satt best að segja er afskaplega lítið gefið fyrir mikilvægi ríkisfjármálanna í hagstjórninni. Þá gleymist kostnaðurinn sem leggst á heimilin út af ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum, út af ábyrgðarleysi í hagstjórn. Það þýðir hærri vexti en ella. Það þýðir hærri vaxtakostnað heimilanna. Það eigum við líka að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál. Það er fátt sem vegur þyngra í pyngju heimilanna en einmitt vaxtakostnaður þeirra. Þess vegna er mjög mikilvægt að gæta aðhalds í ríkisfjármálunum.

Förum aðeins í hagstjórnaráhrif fjárlaganna: Hér er verið að auka frumútgjöld ríkissjóðs um 66 milljarða á milli ára þegar horft er til fjárlaga ársins 2017 samanborið við fjárlagafrumvarp eins og það liggur fyrir í breyttri mynd. Þetta er næstum því 10% frá frumútgjöldum ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum 2017. Þegar við horfum á undangengin tvö ár þá er verið að auka heildarútgjöld ríkissjóðs um á bilinu 120–130 milljarða, um tæplega 20% á tveimur árum.

Hér held ég að full ástæða sé til að staldra við og spyrja: Erum við að fara of geyst? Þegar stjórnvöld voru á sínum tíma gagnrýnd fyrir ábyrgðarleysi áranna 2005–2007 var talað um að verið væri að eyða froðunni, eins og það var kallað þá, í varanleg rekstrarútgjöld ríkissjóðs, ekki væri innstæða til langs tíma fyrir þessum tekjum. Ég held að full ástæða sé til að horfa til þess að þó svo staðan sé svo miklu betri núna, og engin sérstök ástæða til bölsýni eða til að hafa áhyggjur af stórum efnahagslegum áföllum á komandi misserum, þá breyti það því ekki að minnsti slaki í hagkerfinu eykur verulega útgjöld ríkissjóðs vegna aukinna útgjalda, t.d. atvinnuleysistrygginga. Aðrir þættir, þessir svokölluðu sveiflujafnarar ríkisfjármálanna, virka líka þar inn, m.a. í umtalsverðri lækkun tekna þar sem heimilin draga saman í varanlegum fjárfestingarútgjöldum, kaupum á bifreiðum, rafmagnstækjum og öðru slíku. Það slær oft ansi hratt í bakseglin hvað þetta varðar. Það hefur reynslan kennt okkur. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að gæta aðhalds nú á hápunkti hagsveiflunnar, fara varlega. Mér sýnist því miður að ekki sé verið að gera það.

Ég endurtek enn og aftur að við erum að gera þetta þrátt fyrir varnaðarorð allra þeirra aðila sem gefa sig út fyrir að hafa sérstaka skoðun á hagstjórnarhlutverki ríkisfjármála, hvort sem við horfum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabankans, helstu hagsmunasamtaka hér eins og Alþýðusambandsins eða Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs. Jafnvel Samtök iðnaðarins gagnrýna forgangsröðun þessa fjárlagafrumvarps og þannig mætti áfram telja.

Við höfum ekki fengið neitt mat á hagstjórnaráhrifum þessa frumvarps. Við höfum ekki álit fjármálaráðs til grundvallar sem gagnrýndi fjárlög og fjármálastefnu síðustu ríkisstjórnar, sem þó var talsvert aðhaldssamari en þessi, fyrir aðhaldsleysi. Þetta er grafalvarlegt mál. Ég held við verðum að fara yfir verklagið í kringum lög um opinber fjármál ætlum við okkur yfir höfuð að temja okkur betri vinnubrögð.

Sá fjárauki sem kom inn í þingið í vikunni ber heldur ekki breyttum vinnubrögðum vitni. Enn og aftur er hrúgað inn alls kyns aukaútgjöldum sem hvorki voru óvænt né ófyrirséð heldur bera þess fyrst og fremst merki að verið er að nýta meiri tekjuafgang ríkissjóðs en gert var ráð fyrir til þess að pússa út ýmsa kostnaðarliði sem er þægilegt að losna við, eins og nýja samninga við bændur sem hefði verið mjög eðlilegt að taka inn í fjárlagafrumvarp ársins 2018 — enda er það væntanlega fyrst og fremst stuðningur sem mun falla til og verða greiddur á því ári. Þetta eru þættir sem við verðum að horfa til.

Ég held að við verðum líka að horfa til þess, ef við ætlum í alvöru að bæta vinnubrögðin, að það er einmitt á þessum tímapunkti sem við þurfum að setja mjög mikinn þunga í niðurgreiðslur skulda, langt umfram hefðbundið niðurgreiðsluferli, af því að hér er einmitt svigrúmið til þess. Við þurfum að bera liðlega 70 milljarða vaxtakostnað. Við berum 900 milljarða heildarskuldir ríkissjóðs og 600 milljarða lífeyrisskuldbindingar. Ef við getum ekki höggvið verulega í þessar skuldir og skuldbindingar á þessum tímapunkti í hagsveiflunni þá verður okkur það svo sannarlega algjörlega ófært þegar kreppir að. 70 milljarða vaxtabyrði er mjög þung byrði fyrir ríkissjóð að bera þegar slær í bakseglin. Það er mjög erfitt að standa undir grunnstoðum samfélagsins á sama tíma og við erum að greiða 70 milljarða í vexti á hverju ári. Þess vegna verðum við að bæta þessi vinnubrögð. Við verðum að láta af þeim leiðindaósið, mjög vægt til orða tekið, að ríkissjóður sé alltaf rekinn þannig að hann magni upp hagsveiflu hvers tíma.

Á árunum 2009–2013 þurfti að draga verulega saman í öllum ríkisrekstri af því að ekkert svigrúm var til neinna framkvæmda; ekki var einu sinni svigrúm til þess að standa undir grunnstoðum velferðarkerfisins. Það þurfti að skerða bætur, skera heilbrigðiskerfið inn að beini og svo mætti áfram telja, að ekki sé talað um þann niðurskurð sem varð t.d. í nauðsynlegum samgönguframkvæmdum. Það hefði einmitt verið kjörið að nýta hinn mikla efnahagsslaka sem þá var til að ráðast í það. Svo þegar vel árar aftur gerum við þetta nákvæmlega eins og síðast, við mögnum upp og eyðum þeim krónum sem í kassann koma þannig að eyðslan eykst alltaf eftir því sem þenslan verður meiri.

Nú erum við í hápunkti hagsveiflunnar. Það er rétt, sem bent er á í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, að gert er ráð fyrir minni hagvexti á næsta ári en á þessu ári, en tæplega 5% hagvöxtur er mjög mikill hagvöxtur í sögulegu samhengi ofan á liðlega 7% hagvöxt á síðasta ári. Ef ekki við þessar kringumstæður, hvenær eigum við þá að sýna aðgætni í ríkisfjármálunum?

Þá aðeins að þörfinni á skýrari sýn í þessum helstu lykilmálaflokkum. Ég hef áður sagt að ég geri ekki athugasemd við og raunar fagna þeirri forgangsröðun útgjalda sem er að finna í stefnu ríkisstjórnarinnar. Líkt og hjá síðustu ríkisstjórn, og raunar að stórum hluta, alla vega á það við um síðari hluta þess kjörtímabils, hjá ríkisstjórninni þar á undan, er forgangsraðað í heilbrigðis- og velferðarmálin, menntamál og nú samgöngumál. Það er vel. Þetta eru þeir liðir í ríkisrekstrinum sem við viljum öll leggja megináherslu á og viljum styrkja og efla. En aukin útgjöld geta ekki verið markmið í sjálfu sér. Við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvað við fáum fyrir þetta fé. Við hljótum að verða að setja okkur skýra mælikvarða um þær gæðakröfur sem við gerum t.d. til heilbrigðiskerfisins, hvaða árangri við viljum ná. Það er ekki markmið í sjálfu sér að auka útgjöld til heilbrigðiskerfisins í 11% af landsframleiðslu.

Það er rétt að hafa í huga, af því sú tala er svo oft nefnd í þessu samhengi, að það er eitt Norðurlandanna sem er með 11% af landsframleiðslu til heilbrigðismála, það er Svíþjóð, með nokkuð hærri greiðsluþátttöku almennings en við erum með, eða rétt um 2% á móti 1,5% hér, önnur Norðurlönd liggja á bilinu 10–10,5% af landsframleiðslu. Miðað við þær tölur sem hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi hér í andsvari rétt áðan þá stefnir í það að útgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði 8,5% og þá 1,5% til viðbótar í greiðsluþátttöku almennings sem þýðir að við sláum hér í 10% af landsframleiðslu sem er gott; okkur miðar þá ágætlega að þessu marki. En þá þarf líka að hafa í huga að við erum talsvert yngri þjóð en á við um önnur Norðurlönd sem við berum okkur saman við. Langstærsti hluti útgjalda heilbrigðiskerfisins fellur til á efri árum okkar, sem þýðir að við ættum að vera með ódýrara heilbrigðiskerfi í samanburði við hin Norðurlöndin sem hlutfall af landsframleiðslu.

Við vitum að þetta á eftir að breytast. Þjóðin er að eldast og við þurfum að hafa svigrúm til að takast á við þau útgjöld. En það má vel ætla, út frá þeim reiknireglum sem eru til um heilbrigðisútgjöldin, ef ég fer rétt með, að u.þ.b. 65% heilbrigðisútgjalda falli til eftir 65 ára aldur eða svo. Þetta er gríðarleg skekkja en það er ekkert óeðlilegt við það að við það að þegar heilsan fer að bila aukist kostnaðurinn fyrir heilbrigðiskerfið. Við þurfum mest á því að halda þá og viljum auðvitað að það sé öflugt og gott fyrir okkur. En þjóðin eldist mjög hratt á næstu 10–15 árum. Þess vegna mun kostnaður í heilbrigðiskerfinu óhjákvæmilega aukast verulega sem nemur sennilega 1–1,5% af landsframleiðslu bara til þess eins að mæta þeirri lýðfræðilegu þróun.

Margt bendir til þess að í heilbrigðiskerfinu megi ýmislegt betur fara; að sóun sé í því sem við þurfum að taka fast á. Þá er ég ekki að segja að stjórnendur í heilbrigðiskerfinu séu ekki að gera sitt besta eða standi sig ekki vel í sínum rekstri. Ég er einfaldlega að segja: Stefnumótun stjórnvalda og æðstu yfirvalda heilbrigðiskerfisins skortir. Á það hefur ítrekað verið bent. Á það hefur landlæknir ítrekað bent. Á það er bent í nýlegri McKinsey-skýrslu að allt of lítið sé hugað að heilbrigðiskerfinu í heild, að það virki sem ein heild en ekki í þessari sílóhugsun sem er í dag. Við verðum að horfa á samspil heilsugæslu, sérfræðilækna, spítalaþjónustu og svo öldrunarþjónustu. Við erum ekki að gera nægilega mikið í þessum efnum.

Því miður þykir mér skorta verulega á það í rökstuðningi hæstv. heilbrigðisráðherra og í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar að ætlunin sé að taka á þessu, að fara í þessa vinnu og gera þá það sem gera þarf til þess að við getum náð betri árangri og dregið úr sóun. Það leysir ekki vanda heilbrigðiskerfisins eitt og sér að auka fjárveitingarnar. Það hefur landlæknir sjálfur sagt ítrekað. Við verðum að taka á rekstrarumgjörð heilbrigðiskerfisins líka. Við verðum að taka á stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Þetta er afar brýnt verkefni að ráðast í en við vitum að kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið mun halda áfram að vaxa. Það er algjörlega óhjákvæmilegt. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að við hugum vel að skilvirkni þess og skipulagi líka.

Það sama má raunar segja um menntakerfið okkar. Hér er enn og aftur lagt af stað með markmið um meðaltöl, að við náum meðaltali OECD-ríkjanna, að við náum meðaltali annarra Norðurlanda. Gott og vel. Ég styð það að við byggjum hér upp eins öflugt og gott menntakerfi og okkur er frekast unnt. Það er mjög mikilvægt. Það er ein mikilvægasta stoðin í þekkingarsamfélagi eðli máls samkvæmt. Við erum öll sammála um það.

Þegar kemur að skilvirkni þessa sama kerfis þá þykir mér vanta verulega upp á sýn á það hvernig bæta megi árangur þess. Mig langar að benda á eitt tiltölulega einfalt dæmi. Hér er búið að samþykkja að stytta framhaldsskólanám um eitt ár, um 25% af því sem áður var. Það þýðir og felst í hlutarins eðli að nemendum í framhaldsskólakerfinu hjá okkur mun fækka verulega á komandi árum. Það er ekki bara út af styttingu námsins, það er líka af því árgangarnir sem eru að fara í gegnum framhaldsskólakerfið eru minni núna en var á undanförnum áratug eða svo. Þess vegna er alveg ljóst að nemendum mun fækka um einhverjar þúsundir í framhaldsskólakerfinu; einn árgangur er u.þ.b. 4.500 einstaklingar eða svo. Það hlýtur því að verða veruleg fækkun á nemendum.

Þá veltir maður því fyrir sér hvernig við ætlum að tryggja að við náum aukinni skilvirkni í menntakerfinu samhliða þessari miklu fækkun því að þetta hlýtur að kalla á breytt skipulag í menntakerfinu okkar. Varla má minnast á möguleikann á því að sameina skóla til þess að nýta það hagræði sem af þessu getur hlotist. Þá hljótum við að horfa til þess einfalda hlutar að við erum væntanlega með umtalsvert stærra húsnæði en við þurfum bundið í framhaldsskólakerfinu í dag. Hvernig ætlum við að ná hagræðingunni þar? Ég hef ekki áhyggjur af kennarafjöldanum, þar hefur vandinn verið á hinn veginn. Sú fækkun sem verður í nemendahópnum mun sennilega hjálpa okkur að takast á við þann vanda sem stafar af kennaraskorti í landinu. Ég hef verulegar áhyggjur af því að það megi aldrei ræða þennan þátt. Við þekkjum nýlega umræðu um mögulegan samruna Fjölbrautaskólans við Ármúla og Tækniskólans sem allt varð vitlaust út af. Ég horfi til þess og segi: Er þetta ekki einmitt það sem þarf að gerast? Það getur vel verið að betur megi vanda til undirbúnings og aðdraganda o.s.frv., þetta eru alltaf mjög viðkvæm mál, en það er líka nauðsynlegt að ráðast í þessa hluti.

Enn og aftur þurfum við að horfa til þess að útgjaldaaukningin ein og sér, ákveðið hlutfall af landsframleiðslu eða meðaltöl annarra ríkja, getur ekki verið markmið í sjálfu sér. Það eru gæði þjónustunnar sem við erum að byggja upp sem skipta öllu máli. Þegar við horfum t.d. á menntakerfið skiptir gríðarlega miklu máli, og hefur verið kallað eftir því af hálfu framhaldsskólastigsins og háskólastigsins, að stjórnvöld hafi skýrari sýn á það hvaða menntun þau vilja byggja upp í landinu, hvaða menntun er þörf fyrir, hvernig eigi að fjármagna hana. Við vitum t.d. að tæknimenntunin, sem við viljum svo gjarnan leggja meiri áherslu á, er mun dýrari á hvern nemanda en bóknámið. En stjórnvöld virðast ekki reiðubúin að fjármagna það þegar kemur að þeim hluta. Raunar heyrði ég ákveðinn háskólarektor orða það svo: Stjórnvöld afhenda háskólunum einfaldlega fjármuni og segja: Gerið þið við þetta það sem þið viljið. Við höfum enga skoðun á því hvaða menntastefnu þið hafið. Við höfum enga skoðun á því hvort þið setjið þetta allt saman í félagsvísindadeildina eða hvort þið byggið upp heilbrigðissvið eða raunvísindadeild o.s.frv.

Þetta verður auðvitað að lagfæra. Stjórnvöld, við sem hér erum, verða að hafa miklu sterkari skoðun á því hvar þörfin er og vera reiðubúin að setja það fjármagn í kerfið sem þarf og aðlaga reiknireglur, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi, til að tryggja framgang þess. Öðruvísi nær þetta ekki fram að ganga.

Aðeins varðandi samgöngumálin. Mér er það fullljóst að úrbætur í samgöngumálum eru mjög brýnar um land allt, ekki síst út af tvennu, langvarandi fjársvelti í málaflokknum og stóraukinni umferð um landið, m.a. út af uppgangi ferðaþjónustunnar. En ég held að þarna, líkt og annars staðar, þurfum við líka að huga að því að kapp er best með forsjá. Það er enn svo, í hápunkti hagsveiflunnar, að við fáum afskaplega léleg tilboð í verk þegar framkvæmdadampurinn er þetta mikill. Ríkið fær einfaldlega talsvert meira fyrir krónurnar sínar þegar aðeins rólegra er í hagkerfinu en þegar það er í hápunkti spennu. Þess vegna skiptir miklu máli að vera ekki að hlaða meiri framkvæmdum en nauðsyn ber til á þennan tímapunkt í hagsveiflunni og huga líka að því að það þarf einmitt að vera svigrúm til að geta sinnt myndarlegum samgöngubótum þegar að kreppir í hagkerfinu. Þannig er hægt að vinna aðeins á móti hagsveiflunni til tilbreytingar og fá meira fyrir opinbert fé. Allt skiptir þetta mjög miklu máli.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera mjög miklar athugasemdir við einstaka liði fjárlaganna né heldur þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur hér flutt. Í öllum megindráttum sýnist mér að þær breytingartillögur séu nokkuð í takt við meginforgangsröðum ríkisfjármálanna, þ.e. áfram er verið að leggja megináherslu á heilbrigðiskerfið, á velferðarkerfið og á samgöngur. Ég styð þá forgangsröðun af heilum hug, en ég vara við að aðhaldsstig ríkisfjármálanna er einfaldlega allt of lítið á þessum tímapunkti og því þarf að stíga mjög varlega til jarðar. Það er alveg ljóst, og mér fannst ég heyra mjög sannfærandi rök heilbrigðisstofnana af landsbyggðinni fyrir því, að þær hefðu setið eftir í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og brýn þörf væri á að styrkja þær. Ég styð það heils hugar. Það er mjög brýnt að efla heilbrigðisþjónustuna um allt land. Á það hefur ítrekað verið bent. Við þurfum að bæta aðgengi að sérfræðiþjónustu úti á landi, við þurfum að styrkja heilsugæsluna úti á landi. Hér er verið að stíga skrefið í þá átt. Það er vel.

Það er hins vegar ein breyting og raunar fleiri sem við höfum verið sérstaklega andvíg. Við erum ekki fylgjandi hækkun á fjármagnstekjuskatti. Þetta er mjög kvikur gjaldstofn. Fjármagnstekjur eru mjög sveiflukenndar tekjur, endurspegla líka þá áhættu sem felst í fjárfestingu í atvinnulífi. Þess vegna getum við ekki stutt hækkun á fjármagnstekjuskatti. Það er þó jákvætt að samhliða því sé verið að hækka frítekjumörk fjármagnstekna fyrir einstaklinga þannig að þessi hækkun bitni að minnsta kosti ekki á þorra almennings. Það er samt vert að hafa í huga að fjármagnstekjur eru kvikur gjaldstofn að því leyti til að þær leita mjög auðveldlega úr landi eins og umræðan, í stjórnmálunum ekki hvað síst, hefur raunar endurspeglað á undanförnum misserum.

Það er því mjög mikilvægt að við séum með samkeppnisfært fjármagnstekju- og fjármagnsskattsumhverfi við nágrannalönd okkar. Þar verðum við að horfast í augu við þá einföldu staðreynd að frádráttarmöguleikar í fjármagnstekjuskatti eru mun minni en hjá nágrannaþjóðum okkar. Og eins og áður hefur verið nefnt í umræðunni erum við að jafnaði með umtalsvert hærri verðbólgu og erum þar af leiðandi að skattleggja raunávöxtun talsvert meira en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Ég treysti því að við endurskoðun á gjaldstofni fjármagnstekna verði tekið tillit til slíkra sjónarmiða og teldi mjög skynsamlegt í því samhengi að horfa til mögulegs samspils vaxtabótakerfis og fjármagnstekjuskatts, þ.e. að í stað núverandi stuðnings komi einfaldlega frádráttarheimildir á móti fjármagnstekjum og almennum skatti fyrir heimilin, frádráttur vegna húsnæðisskulda.

Það er alveg ljóst að ef ráðast á í einhverjar skattalækkanir á komandi misserum — t.d. lofuðu nær allir ef ekki allir stjórnmálaflokkar lækkun tryggingagjalds fyrir kosningar — þá þarf auðvitað að vera svigrúm til þess í ríkisfjármálunum. Forsenda þess að mínu viti er einmitt að skuldir séu greiddar hratt niður, að við nýtum gott árferði núna til þess að skapa svigrúm til skattalækkana þegar fram í sækir.

Örstutt varðandi velferðaráherslurnar í fjárlagafrumvarpinu, það snýr að barnabótum og vaxtabótum: Það er rétt, eins og kom fram í máli hæstv. félags- og jafnréttisráðherra, að til stendur að endurskoða þessi kerfi. Sú vinna var sett af stað af síðustu ríkisstjórn. Ég vænti þess að sú nefnd sem þar er að störfum skili af sér tillögum fljótlega. Það er mjög mikilvæg endurskoðun. Lagt var upp með, og ég heyri ekki annað en þær áherslur séu óbreyttar, að horfa sérstaklega til þess hvernig þessi kerfi geti þjónað betur tekjulægstu einstaklingunum í samfélaginu. En staðreyndin er sú að það hjálpar ekkert þessu fólki á næsta ári að þessi kerfi séu í endurskoðun. Staðreyndin er sú að það virðist hafa verið markviss stefna hér um árabil að láta viðmiðunartekju- og eignamörk þessara kerfa standa óbreytt að nafnvirði þrátt fyrir allar þær breytingar sem hér hafa orðið, hrun, óðaverðbólgu o.s.frv., jafnvel lækkun eignaviðmiða eins og í tilfelli vaxtabóta. Þetta þýðir að þessi kerfi eru ekkert að þjóna lengur þeim hópum sem þeim var ætlað að þjóna. Þau koma að sáralitlu leyti að einhverju gagni.

Ég tel því mjög mikilvægt að grípa til ráðstafana núna til þess að gefa þeim eitthvert smávægilegt bit þó ekki væri annað. Að raungildi voru útgjöld ríkissjóðs árið 2008 um 9,5 milljarðar til vaxtabótakerfisins, stefna í að verða 4 milljarðar á næsta ári en verður sennilega minna; raunin hefur verið, t.d. eins og í framkvæmd fjárlaga á þessu ári, að útgjöld vaxtabóta reynist minni en áætlað hafði verið. Þetta kerfi er að hverfa. Þess vegna lögðum við til að eignamörk yrðu hækkuð um 5 millj. kr. Það hefði kostað ríkissjóð um 1,3 milljarða á ári. Við lögðum sem dæmi fram tillögu um að fella niður eða hætta við áform um að framlengja ívilnun til bílaleigna sem ætlað er að kosti um 1,5 milljarða á ári. Mér finnst það ekkert sérstaklega góð forgangsröðun að niðurgreiða atvinnustarfsemi, sem er að því er virðist í ágætum blóma, en vera ekki reiðubúin til að hækka lítillega eignaviðmið vaxtabótakerfisins til að styðja við tekjulægstu einstaklingana í samfélaginu. Það finnst mér ekki sérstök forgangsröðun í velferð.

Að lokum þótti mér dálítið leiðinlegt að sjá í atkvæðagreiðslu um svonefndan bandorm í morgun að tiltölulega meinlaus breytingartillaga Pírata, sem fólst í því að festa í sessi sérstakt bráðabirgðaákvæði varðandi frítekjumörk öryrkja. Við höfum rúllað þessum frítekjumörkum áfram til bráðabirgða eitt ár í senn í um áratug. Þetta hefði ekki kostað ríkissjóð eina einustu krónu, en hefði að einhverju leyti aukið fyrirsjáanleika þessa hóps. Þar væri þá alla vega um að ræða kerfi sem hægt væri að reiða sig á til einhverrar framtíðar eða þar til margboðaðri endurskoðun lýkur. Ég skil ekki alveg af hverju í ósköpunum ekki var hægt að samþykkja þá tillögu. Hún var útgjaldalaus fyrir ríkissjóð. Eini tilgangurinn var að auka örlítið fyrirsjáanleika þessa viðkvæma hóps hvað varðar frítekjumörk. Ég vona að þessi breytingartillaga Pírata komi aftur fram fyrir 3. umr. og ég vona að viðhorf stjórnarmeirihlutans til hennar verði þá önnur. Menn þurfa ekki að vera viðkvæmir fyrir því að góðar tillögur og meinleysislegar, eins og í þessu tilfelli, hvað útgjöld ríkissjóðs varðar, komi frá minni hlutanum. Þetta er fín tillaga. Ég vona að hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra beiti sér fyrir því að þetta verði klárað og að meiri hlutinn, ef það er það sem þarf til, geri þessa breytingartillögu þá að sinni því að hún er fín.