148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Það er reyndar mjög mikilvægur punktur sem hæstv. forsætisráðherra kemur hér inn á, þ.e. að sá spítali sem verður byggður á næstu árum verður ekki sá síðasti sem verður byggður. Í því samhengi skoðast aðgerð síðasta árs þar sem Vífilsstaðalandið var selt til Garðabæjar. Nú er inni heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaga um sölu á Keldnalandinu. Eflaust eru fleiri staðir sem skynsamlegt væri að taka frá til framtíðarnota ef svo fer að allt verður byggt upp við Hringbraut.

Telur hæstv. forsætisráðherra ... (Forsrh.: Nú kemst ég ekki aftur upp.) Nei, fyrirgefðu, auðvitað kemstu ekki aftur upp. Ég fabúlera bara hérna áfram um það sem mér finnst að þér ætti að þykja. (Forsrh.: Já, endilega.) [Hlátur í þingsal.] Við nýgræðingarnir megum þetta. (Forshr.: Já, já.) En í því ljósi held ég að skynsamlegt væri að taka undir tillögu okkar Miðflokksmanna síðar í dag um að fella út heimild til sölu á Keldnalandi. Það er þá bara hægt að setja hana inn aftur að ári ef menn komast að þeirri niðurstöðu. Menn upplifðu það sem tilviljanakennt að Vífilsstaðaland skyldi hafa verið selt að því er virðist án heimildar í fjárlögum. Því held ég að það sé ástæða til að fyrirbyggja sambærilegt slys hvað Keldnaholtið varðar á meðan menn halla sér aðeins aftur í stólnum og taka ákvörðun um næsta spítala á eftir þeim sem nú verður byggður, verði hann byggður við Hringbraut.