148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:54]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og fleiri langar mig að fagna þessari viðbót meiri hluta fjárlaganefndar til samgangna og draga fram að 200 af þessum 755 milljónum fara í endurbætur og aukið umferðaröryggi á Grindavíkurveginum. Þar hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun undanfarin ár, 14% síðustu fimm árin. Þetta er slysamesti og hættulegasti vegur landsins samkvæmt EuroRap.

Milljón ferðamenn heimsækja Bláa lónið árlega og þannig er þörf á að bæta öryggi verulega og koma veginum á samgönguáætlun. Það er mjög brýnt núna á nýju ári. Þarna inni eru líka 75 milljónir til almenningssamgangna sem skiptast á milli landsvæða og það er einnig mjög mikilvægt að styrkja almenningssamgöngur á landinu.