148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það er töluverð ólga undir niðri á vinnumarkaði um þessar mundir og óvissa um framlengingu kjarasamninga í byrjun næsta árs. Þar er m.a. af hálfu verkalýðshreyfingarinnar horft mjög til félagslegs stöðugleika. Það virðist hins vegar vera að ný ríkisstjórn ætli að láta aðilum vinnumarkaðar algjörlega eftir að sækja slíkan stöðugleika í kjarasamningum í staðinn fyrir að leggja sitt af mörkum einmitt við fjárlagavinnuna eins og tækifæri er til nú um stundir. Það kemur m.a. fram í því að meiri hlutinn, þ.e. þingmenn að baki ríkisstjórn, hafa þegar fellt hugmyndir um sérstaka hækkun vaxtabóta og ekki er að finna nein áform um sérstakar breytingar varðandi barnabætur eða vaxtabætur til að færa til fyrra horfs. Hér er beinlínis unnið gegn jöfnunarhlutverki skattkerfisins. Það væri kannski miklu betri bragur að því að stjórnarmeirihluti stæði að því að verja jöfnunarhlut skattkerfisins til þess einmitt að stuðla að félagslegum stöðugleika í stað þess að ætla aðilum vinnumarkaðar að þurfa að sækja slíkt í gegnum kjarasamninga.

Þá er líka ágætt að hafa í huga í aðdraganda boðaðs sáttafundar forsætisráðherra í þessum efnum að hér er mjög mikilvægt að staðinn sé vörður um þetta tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins og þær breytingar sem ríkisstjórnin boðar varðandi sérstaka lækkun á neðra þrepi skattkerfisins, og lækkun tryggingagjalds eru ekki þeir þættir sem er einhver skiptimynt eða gjaldeyrir inn í umræður um kjarasamninga á komandi ári. Því hafa fulltrúar launþega þegar lýst yfir.

Ég held því að ríkisstjórnin verði að endurskoða afstöðu sína í þessu máli. Það er enn tækifæri til þess í aðdraganda 3. umr. fjárlaga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)