148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breytingartillaga um hækkun barnabóta.

[10:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fór aðeins yfir tölur í gær og leyfi mér örlitla tilætlunarsemi út frá þeirri staðreynd að Vinstrihreyfingin – grænt framboð er í ríkisstjórn og sömuleiðis af því að í minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram stuðningur fimm flokka, þ.e. Viðreisnar, Miðflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Flokks fólksins, sem er samtals 28 manns, við breytingartillögur minni hlutans um barnabætur, þ.e. um að barnabætur skerðist ekki langt undir lágmarkslaunum. Ég tel mig vita, og ég veit að það er tilætlunarsemi, að ef ekki væri vegna ríkisstjórnarsamstarfs VG og Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar myndi VG styðja þessar tillögur. Það kæmi mér a.m.k. stórkostlega á óvart ef svo væri ekki. Og þá, ef svo væri, í þeim draumaheimi, væri 39 manna meiri hluti fyrir tillögum minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Út frá því virðist vera, myndi maður halda, meiri hluti á Alþingi fyrir því að gera þá breytingu. Ég vek athygli á því að breytingin er kostnaðargreind, þetta eru ekki miklar upphæðir í samhengi við fjárlög. Meira að segja mætti sleppa Samfylkingunni eða Pírötum eða Miðflokknum og það væri samt meiri hluti fyrir málinu ef VG væri með.

Ég hygg að það sé efnislegur meiri hluti fyrir tillögunum en hins vegar er ekki pólitískur meiri hluti vegna stjórnarsamstarfsins. Þegar hæstv. ráðherra hefur verið spurð hvort hún myndi styðja hækkun barnabóta á þann hátt sem hér hefur verið lýst hefur hún svarað því sem svo, ef ég skildi rétt, að það væri eitthvað athugunarvert við vinnubrögðin. En þá langar mig að spyrja: Snýst það þá ekki um að halda stjórnarsamstarfinu? Snýst atkvæði hæstv. forsætisráðherra og Vinstri grænna við þá tillögu ekki um að halda ríkisstjórnarsamstarfinu? Í öðru lagi langar mig að spyrja: Þegar við höfum haft aðeins meiri tíma fyrir næstu fjárlög og næstu umræðu, mun þá stjórnin undir einhverjum kringumstæðum greiða atkvæði með tillögu minni hluta, í þessu máli eða öðru?