148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:53]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það sem ég skil ekki er af hverju við getum ekki bara verið heiðarleg hvert við annað. Ef málið er að ekki á að taka tillit til tillagna minni hlutans nema þær fari í gegnum nefndina, fái einhvern meiri hluta í nefndinni og verði lagðar fram af nefndinni, ef það sem við í minni hluta leggjum fram er í raun og veru bara dauðadæmt af því að það hefur ekki farið í gegnum rétt ferli í nefndinni, til hvers erum við þá að þessu? Af hverju spörum við ekki tíma hver annars og skattpeninga, erum heiðarleg með það og bara sleppum því að leggja fram tillögur minni hlutans af því að þær eiga ekki séns? Annars er þetta svo mikið gervi, svo mikill sýndarleikur. Mér finnst, sorrí, leiðinlegasti hlutinn við þetta starf vera að standa hérna í þessari pontu og taka þátt í einhverju leikhúsi.

Tökum bara ákvörðun um þetta. Við hættum að leggja fram tillögur minni hlutans því að það er augljóslega ekki neinn vilji til að taka mark á þeim. Þurfum við ekki bara að finna einhverja aðra leið að þessu?