148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Barnabætur fylgja börnunum. Þið segið nei við börnin, við ætlum að byrja að skerða þær bætur sem okkur finnst rétt að þið eigið að fá, þó að foreldri þitt sé undir lágmarkslaunum, þó að foreldrið geti ekki einu sinni skaffað lágmarkstekjur þurfum við samt að skerða bæturnar ykkar. Það er í alvörunni það sem er verið að segja við börnin í landinu. Ég sé ekki að þessi ríkisstjórn geti hreinlega staðið undir fyrstu setningunni í velferðarkafla sínum í stjórnarsáttmálanum: Gott samfélag er barnvænt samfélag“. Ekki þegar sagt er við börn: Ég ætla að byrja að skerða það sem þú færð frá ríkinu, sem okkur finnst rétt að þú fáir frá ríkinu, þótt foreldrið geti ekki einu sinni skaffað lágmarkstekjur. Það er sérstaklega tekið fram í kaflanum Jöfn tækifæri: „Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.“ Þessi ríkisstjórn getur ekki staðið við það fyrr en þessi tillaga sem hérna er verður samþykkt. (Forseti hringir.) Hún verður klárlega ekki samþykkt núna. Þið hafið heilt ár til þess að samþykkja hana.