148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta er þá væntanlega stríðnistillaga að mati hæstv. fjármálaráðherra því að hún er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, eða að minnsta kosti hluta hennar, ekki hvað síst stefnu hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Við í Miðflokknum tökum góðum tillögum sama hvaðan þær koma, hvaðan sem þær eru upprunnar. Við höfum skilning á því að það var kannski ekki hægt fyrir hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, sem hafði mörgu að sinna, að leggja þessa tillögu fram sjálfur. En við erum algerlega sammála mati hv. formanns um mikilvægi þess að koma til móts við íslenska fjölmiðla í þeim kröggum sem sú mikilvæga grein er, fyrir lýðræði í landinu. Og við erum líka sammála hugmynd hv. þingmanns um hvernig best sé að standa að því, þ.e. með því að afnema virðisaukaskatt af áskriftargjöldum, hvort sem það er af blöðum eða sjónvarpi eða hljóðvarpi eða öðrum áskriftargjöldum íslenskra fjölmiðla.

Herra forseti. Ég á mjög bágt með að skilja að (Forseti hringir.) hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar ætli að leggjast gegn tillögunni sem hann fann upp. [Hlátur í þingsal.]