148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

Samgöngustofa, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

109. mál
[15:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

Með því er lagt til að birtir verði á heimasíðu stofnunarinnar viðaukar og kóðar við alþjóðasamninga á sviði siglinga sem Ísland er aðili að, ásamt dreifibréfum og leiðbeiningarreglum sem Alþjóðasiglingamálastofnunin gefur út.

Ísland er aðili að 33 samningum sem samdir hafa verið á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Umfang þessara samninga er gríðarlega mikið og var áætlað á sínum tíma að um væri að ræða um 6.400 blaðsíður. Þá var ekki talinn með texti annarra gerninga svo sem ályktana og dreifibréfa. Almennt er það svo að alþjóðasamningar eru samdir á löngum tíma og á sérstökum ráðstefnum. Á sviði siglinga hefur orðið sú þróun að tæknilegur hluti samninganna hefur verið færður úr meginefni þeirra og þeir settir í sérstaka gerninga sem sækja stoð í samningana. Með öðrum orðum er að finna í alþjóðasamningum ákvæði um markmið og meginreglusjónarmið ásamt skyldum samningsaðila. Hinnar tæknilegu útfærslur er svo að finna í viðaukum og kóðum. Er það sambærilegt því sem þekkist hér á landi, en lög heimila ráðherra að útfæra efni þeirra í reglugerðum.

Ástæðan fyrir því er sú að umhverfi siglinga er alþjóðlegt og breytingar örar. Einfaldara er að breyta viðaukum og kóðum en alþjóðasamningum. Með því má bregðast hraðar við tækninýjungum og nýjum aðstæðum, en það getur leitt til þess að breytingarnar geta orðið mjög örar.

Fram undan er úttekt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar hér á landi á því hvernig íslensk stjórnvöld hafa innleitt og framkvæmt ákvæði tiltekinna samninga. Í tengslum við þá úttekt skoðaði ráðuneytið og Samgöngustofa hvernig staðið væri að birtingu þessara viðbótargerninga. Í ljós kom að birtingu þeirra er mjög ábótavant og hafa fæstir þeirra verið þýddir og birtir. Ástæðan fyrir því er einföld, hún er smæð íslenskrar stjórnsýslu, gríðarlegt umfang viðkomandi gerninga og birtingarreglur sem ekki henta slíkum tæknilegum texta sem sífellt breytist. Því er þörf á nýrri hugsun í þessum efnum. Er þetta frumvarp afraksturinn af henni.

Með frumvarpinu er sem sagt mælt fyrir um einfaldari birtingarhátt en gert er ráð fyrir í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið. Eins og áður hefur komið fram er umfang þessara gerninga viðamikið. Því yrði erfitt og kostnaðarsamt að þýða þá fyrir birtingu. Enn fremur er um að ræða mjög tæknilegan texta sem varðar afmarkaðan hóp sérfróðra manna. Þörf er á sérstakri heimild í lögum til að birta slík fyrirmæli á öðru tungumáli en íslensku.

Við vinnslu frumvarpsins var farið ítarlega yfir samræmi þess við birtingarreglur stjórnarskrárinnar og var niðurstaðan að efni þess væri í samræmi við hana. Var farið nákvæmlega eftir þeim sjónarmiðum sem lög um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið byggðu á þegar heimilað var eingöngu rafræn birting þeirra.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umr.