148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

Samgöngustofa, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

109. mál
[15:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru auðvitað áhugaverðar vangaveltur sem þingmaðurinn kemur með sem skipta vissulega máli. Í vinnu við þetta frumvarp, einmitt í þeim kafla sem hv. þingmaður vísar til, er fjallað um tryggingu þess að almenningur hafi aðgang að upplýsingum. Þegar á sínum tíma var heimilað að gefa Lögbirtingablaðið eingöngu út rafrænt árið 2002 hafði tiltekinn hópur, 81% landsmanna aðgang að tölvu og 77% aðgang að tölvum með nettengingu, en árið 2014 voru 98,2% landsmanna með netnotendur og 96,5% höfðu aðgengi að netinu. Við erum líka alltaf að reyna að bæta það í fjarskiptaáætlun að allir hafi aðgang, svo þekkjum við auðvitað þessi kynslóðabil í þeirri notkun.

Lykilatriðið í því að það sem birt er og þýtt er samningurinn, hann er á íslensku. Það eru þessir viðaukar og kóðar sem mjög afmarkaður hópur sem má einn heita tryggt að hafi þennan aðgang gegnum nettengingar og slíkt af því að hann vinnur í því umhverfi. Að mati ráðuneytisins er tryggt að upplýsingarnar séu annars vegar aðgengilegar almenningi en hins vegar alveg 100% öruggt að þeir sem vinna í þessu umhverfi hafi aðgang og séu vanir að vera í þessu umhverfi á ensku.