148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá að vera hér fyrstur í þessari röð. Mig langar að fara yfir örfá atriði með hv. þingmanni. Í fyrsta lagi, hvað áætlar hann að borgarlínan flytji marga sjúklinga til spítalans á hverju ári? Í öðru lagi, hvernig á að taka átta ár eða lengur að skipuleggja svæði fyrir nýjan spítala?

Við erum ekki að tala um álver. Við þurfum ekki að fara í grenndarkynningu eða neitt svoleiðis, við erum að tala um spítala, við erum að tala um sjúkrahús. Við erum að tala um sjúkrahús á ónumdu landi. Skipulagsvinna þar í grennd er afskaplega einföld, afskaplega skýr. Við höfum aðallega verið að tala um tvo staði þegar við köstum fram þessari hugmynd, það er annars vegar Vífilsstaðir, hins vegar Keldnasvæðið sem er í eigu ríkisins. Ég trúi ekki öðru en að það sé akkur fyrir bæði þessi sveitarfélög að drífa skipulagið af ef þau vilja að sjúkrahúsið rísi í sínu sveitarfélagi. (Forseti hringir.) Mig langar til þess að fá komment frá hv. þingmanni um þetta.