148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekkert algilt sjónarmið. Fólk greinir á um svona hluti almennt og ekki eingöngu í því máli sem ég nefndi hér áðan, sem er vímuefnastefna Pírata, heldur er almennt ósammála um það hvernig eigi að nálgast svona hluti.

Í kjölfarið á því að hafa hlustað á ræður hér í dag velti ég líka öðru fyrir mér. Það virðist vera sem svo að sumir sem eru hlynntir þessari tillögu, ég er hlynntur henni akkúrat núna, gefi sér að annarlegir hvatar, kannski ekki annarlegir en alla vega ekki nógu faglegir, búi að baki, til þess að komast að niðurstöðu um að endurskoða eigi þetta staðarval.

Ég vona að ég sé ekki að mistúlka neitt. Ég bara segi frá eins og ég hef skilið ræðurnar hingað til. En ef þetta má ekki vera hin svokallaða elíta, ef þetta má ekki vera stjórn Landspítalans og svoleiðis, hverjir eiga þetta þá að vera? Ég velti því fyrir mér. Þurfa það þá ekki að vera erlendir sérfræðingar og þurfa þá ekki alltaf að vera erlendir sérfræðingar í öllu? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að haga þessu ef ekki með þeim hætti að þessir helstu aðilar komi að?