148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

tekjuskattur.

108. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Hversu gamalt er þetta? Þetta er frá því að ég kom inn í það. Mín fyrstu kynni af þessu kerfi voru þau að þegar ég lenti í mínu slysi og varð öryrki var konunni minni neitað um að vinna. Hún má ekki vinna vegna þess að ef hún færi að vinna skertust bæturnar mínar. Ég fór á ASÍ-þing og annað og barðist fyrir að þessu yrði breytt. Og þessu var breytt, sem betur fer. En breytingin var ekki meiri en svo að þetta er komið aftur. Skerðingar við maka eru komnar aftur.

Það hefur verið barist fyrir breytingum í þessu kerfi alla tíð. Það sem hefur kannski eyðilagt kerfið í heild sinni er að það hefur ekki verið tekið gersamlega og núllstillt og byrjað upp á nýtt. Það er alltaf verið að bæta inn í kerfið. Við vitum að ef þú ert að byggja hús verðurðu að byggja það eftir ákveðnum reglum. Þú byggir ekki bara eitthvað hér og eitthvað þar, þá mun það aldrei standa. Þetta kerfi er þannig upp byggt. Hugmyndum er bara hent inn í það: Já, við skulum bara styrkja þennan flokk, styrkjum lyfin, látum þennan pening í að styrkja lyf. Þú setur það bara inn á einum stað í kerfinu en þá gleymirðu að taka tillit til þess að af því að þetta eru tekjur eru allar tekjur undir. Hjá þeim sem lifir í þessu kerfi eru allar tekjur undir. Allt sem heitir tekjur skerðist. Þess vegna eru þessar krónu á móti krónu skerðingar og þetta refsikerfi svona óskiljanlegt.

Þegar kerfið er orðið svo óskiljanlegt að enginn hjá Tryggingastofnun, enginn mannlegur máttur, skilur það og getur reiknað það eigum við að segja: Hingað og ekki lengra. Og bara byrja strax og koma með nýtt kerfi.