148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að ræða aðeins um orkumál og jafnvel til að gerast svo djarfur að setja hér fram framtíðarsýn mína. Ég veit að það er mikil eftirspurn eftir henni í þessum sal.

Ég varð þess heiðurs og þeirrar ánægju aðnjótandi í síðustu viku að fá að hitta fólk bæði í Svíþjóð og Danmörku sem hefur þar komið að málum er varða orkustefnu fyrst og fremst, en orkumál almennt líka, og kynnast því hvernig vélað er um í þeim málum í þessum nágrannalöndum okkar. Ég held að við eigum að læra töluvert af þeim um hvernig við högum þessum málum hjá okkur.

Við þurfum að horfa á orkumálin frá nýjum sjónarhóli. Sú framtíðarsýn sem ég sé er að það ferli sem við eigum að fara í sé að leggja fyrst niður fyrir okkur hvernig samfélag við viljum fyrir framtíð okkar. Ætlum við að stefna að grænu samfélagi árið 2030, 2040? Það á að vera fyrsta skrefið. Annað skrefið er í hvað við ætlum að nýta orkuna til að koma á fót þessari framtíðarsýn sem við höfum náð saman um. Þriðja skrefið á að vera að skilgreina hve mikla orku við þurfum til að ná að framkalla þessa framtíðarsýn okkar. Fjórða skrefið er hvar og hvernig við ætlum að afla þessarar orku og svo að lokum hvernig við eigum að flytja hana frá A til B.

Með öðrum orðum tel ég mikilvægt að byrja á þeim enda sem er hvernig samfélag við viljum sjá á Íslandi, hvert við ætlum að stefna með auðlindir okkar.

Ég bind mikla vonir við það að ekki bara náist þverpólitísk samstaða heldur samstaða úti um allt í samfélaginu um þetta. Ég ætla að geta þess hér að síðasta ríkisstjórn opnaði mjög á að rætt yrði um þessi mál á þverfaglegum grunni. Núverandi ríkisstjórn hugsar sér það svo sannarlega, þ.e. stjórnarmeirihlutinn, að halda áfram og auka enn (Forseti hringir.) frekar samstöðu um þetta því að þetta snýst um það hvernig samfélag við viljum sjá Ísland verða.