148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[15:41]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Varðandi það sem hér var sagt um sérstakar umræður vill forseti taka fram að hann hefur þegar átt samstarf við forsætisráðherra um að beina þeim tilmælum til ráðherra að bregðast vel við óskum um slíkt. Fram að þessu hefur það gengið bærilega. Ég hygg að flestar vikur frá því að þing hóf hér störf hafi ein til þrjár sérstakar umræður verið í viku hverri.

Enn sem komið er held ég því að við getum verið sæmilega sátt við uppskeruna í þeim efnum. Varðandi það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er hún að sjálfsögðu algerlega sjálfstæð í sínum störfum og forseti hyggst síður en svo leggja stein í götu þess að hún vinni í þessu máli sem og öðrum eins og hún kýs gera og best getur.