148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég get alveg tekið undir það. Við þurfum auðlindastefnu. Við eigum ekki að gefa frá okkur auðlindir okkar fyrir slikk, segi ég, því auðvitað er veiðigjaldið lágt. Það sér hver maður ef horft er á leiguverðið sem kílóin ganga á á milli útgerða. Þá er veiðigjaldið sem gengur í ríkissjóð hlægilegt. Við höfum haft sama háttinn á með orkuna. Við höfum látið stórfyrirtæki þar fá orkuna fyrir slikk. Og við erum með ferðaþjónustu á skattafslætti. Ég er sammála því að það þurfi að taka auðlindastefnu okkar í gegn og hvernig við njótum gæðanna.

En er ekki hv. þingmaður einmitt sammála mér í því að við eigum að taka viðbótarkvótann og bjóða hann út? Ef við erum alltaf að láta þá sem fyrir eru á fleti fá viðbótarkvótann erum við að gefa auðlindina (Forseti hringir.) frá okkur. Við eigum auðvitað að segja: Hér erum við með nokkur þúsund tonn, hvað bjóðið þið í þau? Og úthluta síðan.