148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ráðherra ber vitanlega að horfa til þeirra siðareglna sem gilda um ráðherra. Þar stendur, ef ég veit rétt, að ráðherra skuli leita sér ráðgjafar um þau mál sem hann fjallar um og tekur ákvarðanir um. Ég held að það sé alveg ljóst að ráðherra uppfyllti einmitt þau skilyrði, enda held ég að það standi ekkert um það í siðareglunum hvort ráðherra þurfi að fara eftir þeim. Það er auðvitað samviska hans sem þar ræður. En ráðherra var dæmdur. Síðan tekur við valkvætt siðferði ákveðins fólks. Valkvætt siðferði Vinstri grænna er sérstaklega áberandi í þessu öllu saman vegna þess að þeirra eigin ráðherra var dæmdur á sínum tíma af sama dómstól fyrir að brjóta lög. Hér hafa hins vegar siðapostular Vinstri grænna staðið í ræðupúlti Alþingis hvað eftir annað og messað yfir hinum og þessum um hversu slæmir þeir séu en þegar kemur að því að fara eftir dómi Hæstaréttar er það bara allt í lagi.

Nú mun VG verja þennan dómsmálaráðherra með kjafti og klóm. Vitið þið af hverju? Það er vegna þess að ef hann þarf að víkja mun væntanlega þeirra ráðherra einnig þurfa að víkja vegna þess að hann fékk dóm frá sama dómstól og sá ágæti dómsmálaráðherra sem hér situr.