148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

rafræn fasteignaviðskipti og ástandsskýrslur fasteigna.

13. mál
[15:00]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ábendingu. Það er alveg hárrétt að ástandsskýrslan vottar í rauninni það viðhald sem eigandi hefur skráð í millitíðinni. Þarna eru ástandsskýrslur sem koma með vissu millibili og þá alltaf alla vega við sölu þannig að kaupandi hefur alltaf núverandi ástand eignarinnar að fullu staðfest og tryggt í gegnum ábyrgðartryggingu úttektaraðila. Allar færslur sem eigandi hefur gert fyrir það, frá síðustu ástandsskýrslu þar á undan, ættu að styðja við þá ástandsskoðun. Ef þær gera það ekki er það eitthvað undarlegt. Væntanlega sér seljandi það sjálfur ef eitthvert misræmi er.

Verk ráðherra yrði þá að sjá til að sett yrði ákveðin viðbót t.d. í island.is, þ.e. viðhaldsdagbók eignar, sem er þá vel aðgengileg eigendum, til þess að skrá og bæta við og meðhöndla þær upplýsingar eins og maður myndi gera í olíudagbók. Það er ekki miklu flóknara en það. Það þarf ekki endilega starfshóp fyrir slíkt, nema kannski forritara og svoleiðis. Það er öll dulúðin við viðhaldsdagbókina. Það getur vel verið að hægt sé að fá áhugaverðar upplýsingar úr henni einhvern tímann síðar, ég myndi þó fara varlega í það eins og er. En það er ekki ætlunin. Ætlunin er einfaldlega að vera geymsla fyrir ástandsskýrslurnar og möguleg virðisaukandi tæki fyrir eiganda.