148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[15:17]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni framsöguna. Ég held að lykilsetningin í ræðu hv. þingmanns og það jákvæða sem ég sé strax við fyrstu rýni hafi einmitt verið að þetta er stórt umbótaverkefni og fellur vel í þann ramma sem við í stóra samhenginu getum horft til sem eru lög um opinber fjármál. Þá leiði ég hugann strax að tillögunni sjálfri þar sem er sagt að hún sé um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

Í lögum um opinber fjármál eru bæði grunngildi og fjármálareglur sem eru vel sett af hugtökum. Það er þessi skilgreining hugtaka sem ég dvel aðeins við. Þetta eru stór og mikil hugtök. Þegar við förum í stórar opinberar fjárfestingar og fjárfestingarverkefni get ég tekið undir hvert orð. Við eigum að tryggja það sem best, hv. þingmaður nefndi hlið, en ferli sem tryggir að við gerum þetta sem best úr garði, hvaða hugtök sem við notum í því efni. En tillagan er sett fram þannig að fela fjármála- og efnahagsráðherra að útfæra stefnumörkunina og svo það sem mér líst jafnframt ágætlega á að skipa sérfræðingahóp, starfshóp, því að ekki er mjög ítarlega farið í hugtökin í greinargerð. Nú notum við hv. þingmenn ýmiss konar hugtök sem eru býsna stór: Þjóðhagsleg hagkvæmni kemur í hugann, við notum það mikið, án þess kannski að greina hvað það þýðir.

Spurningin er þá væntanlega um (Forseti hringir.) að eftirláta þeim starfshópi að greina þau hugtök sem eru viðeigandi þegar skýrsla frá honum kemur.