148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[15:24]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni orð hans. Það gleður mig mjög að hann tekur vel undir þetta. Bara rétt til þess að halda mig við frændur vora Norðmenn, þó að það væri nú ekki beinlínis spurning frá hv. þingmanni, þar sem þeir fjalla t.d. um gæðatrygginguna eða þá hugmynd sem á að fara að vinna með, hvaða kröfur hún eigi að uppfylla, er einmitt sérstaklega minnst á að kortleggja þurfi hagsmunaaðilana, velta fyrir sér áhrifum fyrirhugaðs verkefnis í samhengi við þarfir samfélagsins og að það uppfylli markmið sem sett eru í samfélaginu eða af stjórnvöldum, og hvaða áhrif það muni hafa og hversu raunhæft þetta er o.s.frv. Þessir hlutir eru allir inni. Þetta er ekki bara: Kostar þetta 1 milljarð plús/mínus 5% og þá gerum við það, heldur: Til hvers erum við að gera það? Er þetta nauðsynlegt? Hvaða tilgangi þjónar þetta? Er hægt að fara aðrar leiðir? Og svo framvegis. Þetta er svona tól til að menn viti mjög vel hvað þeir eru að gera og séu sæmilega öruggir um að þeir séu að velja skynsamlegustu og bestu leiðina miðað við þær þarfir eða þann tilgang sem verkefnið hefur og hvaða vandamál því er ætlað að leysa eða hvað það á að bæta.