148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[15:28]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir athugasemdina. Ég tek undir þetta. Ég held að sú hugsun sem er verið að reyna að forma í þessari þingsályktunartillögu sé mjög góð og geti nýst okkur víða. Auðvitað má segja að þingsályktunartillagan eins og hún lítur út við fyrstu sýn sé kannski meira hugsuð um hvernig við stöndum að einstökum verkefnum, en það þýðir ekki að þetta sé ekki mjög gagnlegt tól eða hugmyndafræðin geti ekki gagnast víðar. Ég tek bara undir með þingmanninum. Ég held að það væri mjög gott ef þingið gæti náð samkomulagi um að afgreiða tillöguna og eftir atvikum með breytingum eins og gengur eftir meðferð hv. efnahags- og viðskiptanefndar þannig að við byrjum að feta okkur með markvissari hætti inn í þann þankagang sem liggur þarna að baki.