148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

19. mál
[16:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég man þá tíð að hægt var að eiga í rökræðum við hv. þingmann þar sem hann var ekki eins og í einhverri Morfískeppni, flissandi og gerandi lítið úr málflutningi þess sem er að spyrja hann einfaldlega heiðarlegra spurninga.

Ég hef raunverulegar áhyggjur af því, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, að þetta muni draga úr því hverjir fara í framboð. Ég er ekki þrátt fyrir útúrsnúning hv. þingmanns að leggja það til, eins og hv. þingmaður hefði heyrt ef hann hefði hlustað á ræðu mína áðan, að almenni vinnumarkaðurinn haldi störfum opnum í tíu ár. Ég er einfaldlega að segja: Væri ekki frekar ráð ef við viljum gera breytingar að við horfum í þá átt að við gerðum það að verkum að auðveldara væri fyrir fólk að hverfa úr starfi sínu, taka sæti á Alþingi og hverfa svo aftur til sinna starfa hvort sem það er nákvæmlega sama starfið eða svipað starf. Ég hef enga töfralausn á því, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, hvort þetta eigi að vera fimm ár sem starfið bíður og svo fimm ár í sambærilegu þar á eftir, ég er tilbúinn að skoða hvað sem er í því.

Ég held hins vegar að ef við horfum í hina áttina værum við að horfa til þess að það yrði bara meira um það að fólk kæmi, sæti á þingi einhvern tíma, en kannski myndi það minnka þaulsetu á Alþingi. Ég held að þetta myndi bara verða lýðræðinu jafnvel til heilla ef við horfðum á það þannig og myndi gefa fleirum færi á að sinna því að fá að setjast hér á hið háa Alþingi.

Ég minni á, eins og ég kom inn á áðan, að þegar við vorum að ræða það að útvíkka t.d. fæðingarorlof, ég er alls ekki að segja að hv. þingmaður hafi verið með slík rök, en það voru margir sem fussuðu og sveiuðu yfir því, fannst það algjörlega fáránlegt, það er akkúrat það sem hann er að gera.

Við erum að jafna upp á við, ekki niður á við eins og hv. flutningsmenn (Forseti hringir.) frumvarpsins leggja til.