148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

35. mál
[17:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er prýðilegasta mál. Ég hjó eftir því að í umsögn BSRB frá því málið var lagt fram síðast — umsögn sem ég er reyndar ekki viss um að ég sé efnislega sammála, þótt þar sé ekki lagst gegn málinu — segir að það sé sjálfsagt mál að skýra þetta, taka þetta til í stjórnarskrá o.fl. Í þeirri umsögn segir, með leyfi forseta:

„Vegna orðalags greinargerðar er rétt að vekja athygli á að tillagan nær ekki til allra opinberra starfa (hið opinbera eru ríki og sveitarfélög) heldur eingöngu starfa hjá ríkinu, sbr. gildissvið laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Ég á í svolitlu basli með að átta mig á því nákvæmlega hvað átt er við með þessu. Ég sé að í greinargerð með frumvarpi sem þá var lagt fram stendur „hjá ríkinu“. Ég finn það ekki í umsögninni og fann það ekki við snögga leit hvort einhverjar takmarkanir væru annars staðar í lögunum gagnvart því að hægt væri að ráða fólk utan EES til sveitarfélaga. Ég hefði reyndar viljað ræða umsögnina við BSRB, en ég hjó eftir þessu. Þetta kemur að vísu bara fram í greinargerð.

Veit hv. þingmaður til þess að annars staðar séu einhverjar kvaðir sem ekki koma fram í þeim lögum sem hér er verið að breyta?