148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

35. mál
[17:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma því inn, bara fyrir forvitni ræðuritara, að í greinargerð með frumvarpinu, eins og það er lagt fram núna, er orðalagið öðruvísi. Í gamla frumvarpinu stóð, með leyfi forseta:

„Ráðningu í opinbert starf hjá ríkinu.“

Í nýju útgáfunni er það, með leyfi forseta:

„Ráðningu í opinbert starf.“

Þessi lagfæring hefur greinilega verið gerð með greinargerðinni. Mér þótti þetta bara undarleg athugasemd vegna þess að ég sé ekki hvernig eitthvað í greinargerð gæti haft áhrif á það þegar eitthvað er fellt úr lögum. Lagabókstafurinn mundi aldrei standa eftir ef það væri bannað að ráða fólk utan EES til sveitarstjórnar; ef það finnst ekki í lagabókstafnum, jafnvel þó að það finnist í einhverri greinargerð í einhverju frumvarpi sem afnumdi það. Mér þótti það bara skrýtið og langaði að spyrja að þessu. Ég ætlast svo sem ekki til svars frá hv. þingmanni, en fannst þetta forvitnilegt.