148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

lögbann á fréttaflutning.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem snýst um það lögbann sem sett var á umfjöllun um þau gögn sem voru undir í umfjöllun Stundarinnar sem vísað var til. Ég sagði, þegar þetta lögbann var sett á af sýslumanni, og hef ekki skipt um skoðun á því, að það þyrftu að vera mjög brýnir hagsmunir sem kalla á að í lýðræðissamfélagi væri tjáningarfrelsi takmarkað með þessum hætti. Mér fannst afar ólíklegt þá að það yrði niðurstaða dómara að þessir hagsmunir væru svo brýnir. Það varð niðurstaða héraðsdóms eins og kunnugt er.

Ég tel fulla ástæðu til að fara yfir það lagaumhverfi sem við eigum um þessi mál, hef raunar tilkynnt að á vegum stjórnvalda hefur vinna verið í gangi allt frá árinu 2010, þegar hér var samþykkt þingsályktun um vernd tjáningarfrelsis, oft kennd við IMMI, til þess að fara yfir málefni sem lúta að tjáningarfrelsinu. Sú vinna hefur skilað sér í lagabreytingum, til að mynda á fjölmiðlalögunum á sínum tíma, þar sem vernd heimildarmanna var í fyrsta skipti sett í lög og að frumkvæði þeirrar sem hér stendur. Síðan liggja fyrir tilbúin frumvörp frá starfshópnum sem skilaði af sér síðast árið 2017, gott ef ekki var.

Ég hef lagt til að þessi frumvörp verði tekin til skoðunar sem og að farið verði yfir upplýsingalögin sem full þörf er á að endurskoða út frá þeirri þróun sem orðið hefur frá því að upplýsingalögin voru síðast endurskoðuð, og að farið verði yfir þau málefni sem lúta að því hvernig lögbann er skilgreint á frjálsa fjölmiðlun. Það varðar svo sannarlega tjáningarfrelsi í okkar landi og það er gríðarlega mikilvægt í öllum frjálsum lýðræðissamfélögum að við tryggjum það sem best.