148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[15:59]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Raforkuframleiðsla er mikilvægur þáttur náttúrunytja. Nú til dags er sú eðlilega krafa gerð að auðlindir séu nýttar á sem sjálfbærastan hátt og með fyrirhyggju. Það kallar á heildrænt utanumhald, skýra meginstefnu um virkjanir, flutningskerfi raforku og viðmið um orkuþörf í landinu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur að orkustefna verði sett á kjörtímabilinu með atbeina allra þingflokka. Áætluð orkuþörf verður lögð til grundvallar og tekið mið af mótaðri stefnu um orkuöflun, orkuflutning og nýtingu. Þessi málefni varða hag samfélagsins og náttúruna miklu.

Undanfarin ár hafa komið út skýrslur um orkustefnu og raforkumál, lög verið sett um kerfisáætlun orkuflutninga, grunnstefna um uppbyggingu kerfisins lögð fram. Unnið er að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og orkuskipti hafa verið tekin fyrir, rammaáætlun um orkukosti er unnin í áföngum. Flest stefnir þetta í átt að heildrænni sýn, varkárri sýn sem viðurkennir að orkuauðlindir eru takmarkaðar og náttúra og umhverfi hafa nytjaþolmörk rétt eins og auðlindir í lífríki hafsins.

Ég beini spurningu til hæstv. ráðherra og þakka henni fyrir tækifærið: Hvað felst í þeirri yfirlýsingu stjórnarsáttmálans að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar er virkjuð? Hvað felst í því? Hvað felst í að byggja skuli orkustefnu á áætlaðri orkuþörf miðað við stefnu stjórnvalda? Hvað hagkvæmni varðar minni ég á að hægt er að nýta aflgetu vatnsvirkjana betur en nú gerist með úrbótum á flutningskerfinu, nýta aukið rennsli jökulfljóta vegna loftslagshlýnunar. Ég skil stjórnarsáttmálann sem svo að betur en hingað til verði unnið að því að aðlaga framkvæmdir eiginlegum þörfum á raforku.

Hver gæti verið skynsamleg viðbót við þá vatnsorku sem þegar hefur verið virkjuð? Uppsett afl er nálægt 2.000 megavöttum. Miðað við orkuspá vegna íbúafjölgunar, þróunar fyrirtækja utan stóriðju og orkuskipta í samgöngum gæti þurft mörg hundruð megavött í viðbót á næstu áratugum. Ásættanleg orkufrek fyrirtæki gætu þurft svipað afl. Gagnaver eða matvælaframleiðsla í stórum stíl kæmi til álita. Það má ætla að 500–1.000 megavött þurfi fyrir árið 2050, að teknu tilliti til meiri hagkvæmni virkjana og orkusparnaðar.

Ég spyr: Gæti minni hluti rafafls komið úr vatnsafli en meiri hluti úr jarðvarma? Væri þar með þolmörkum hefðbundinnar orkuframleiðslu ekki náð?

Í þingsályktunartillögu um uppbyggingu flutningskerfis raforku er gert ráð fyrir samnýtingu loftlína og jarðstrengja í meginflutningskerfinu. Í ríkisstjórnarsáttmálanum segir að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið. Merkir það að hvorki loftlínur né jarðstrengir verði lagðir yfir hálendið? Hvernig tryggjum við að niðurstöður úr djúpborunum eftir jarðvarma og möguleikar á virkjun hans verði í raun og veru þáttur í orkustefnunni? Nýja tæplega 5 km djúpa borholan á Reykjanesi gæti breytt orkuöflun okkar mjög mikið. Slík hola er fimm til tíu sinnum aflmeiri en 2 km djúp gufuaflslind. Innan fárra ára verður ljóst hvort unnt er að fullnýta svona orkubolta.

Í stefnumótun þarf að gera grein fyrir hvernig djúpboranir og virkjun ofurhola kunna að breyta forsendum orkustefnunnar. Stjórnarsáttmálinn kveður á um lög um vindorkuver. Þar er hins vegar ekkert að finna um sjávarorkuver og aðeins örfá orð um varmadælur. Ég spyr: Verður fjallað um fjölbreyttar leiðir til orkuöflunar í orkustefnunni?

Nokkur reynsla er þegar fengin hér af vindmyllum og undanfarið hefur borið á miklu meiri áhuga á vindorku en áður. Misstór verkefni eru á könnunar- og tilraunastigi en til þessa hefur ekki verið fjallað um þennan orkukost í skýrslum stjórnvalda að neinu marki. Vindorka og einnig of lítið könnuð sjávarorka, samanber þróunarstarf eins fyrirtækis, Valorku, hljóta að teljast hluti orkustefnunnar. Og hvað er að segja um útflutning raforku miðað við ásættanlega orkukosti og innanlandsþörf fyrir raforku?

Vegna takmörkunar orkuauðlinda telja margir að við séum ekki aflögufær og framlagið mjög smátt í evrópsku samhengi. Sviðsmyndin gæti breyst ef eitt eða fleiri stóriðjufyrirtæki hætta starfsemi eða virkjun djúphita reynist árangursrík. Hér þarf upplýsta umræðu um alla þætti málsins. Ég segi: Mótum alhliða og raunhæfa orkustefnu sem samþykkt verður af þorra landsmanna.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að þingið hafi innlegg í orkustefnu til langs tíma á fyrri stigum, í mótun hennar. Þess vegna hvet ég alla þingmenn sem hér eru til að taka þátt í þessari umræðu.