148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:09]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að setja þetta mikilvæga mál á dagskrá. Vinna nýrrar orkustefnu fyrir Ísland er mikilvægt verkefni og skiptir máli að móta heildstæða sýn. Hversu mikið sjáum við fyrir okkur að kerfið eigi að vaxa og geti vaxið? Ættum við að halda áfram á braut stóriðju? Það er nokkuð sem ég held reyndar að við ættum að hverfa frá. Eða ætlum við að horfa til annars konar iðnaðar, matvælaframleiðslu, byggja frekar á fleiri og minni fyrirtækjum í stað þess að einblína á fáa stórnotendur?

Frumforsenda þessa alls hlýtur þó að vera einföld, þ.e. að flutningskerfið virki. Ef við getum ekki flutt orkuna á milli svæða er staðan sú að við gætum neyðst til þess að fara í óhagstæða raforkukosti, óhagstæðari virkjanir, einfaldlega vegna þess að flutningskerfið virkar ekki eins og það á að gera.

Staðreyndin er að það er ekkert í nútímasamfélagi sem gengur ekki fyrir rafmagni. Má segja að í dag séu það algjör grundvallarmannréttindi að hafa aðgang að því. Hvernig ætlum við til að mynda að vera hluti af fjórðu iðnbyltingunni í rafmagnsleysi?

Sú staða sem við erum í er auðvitað fáránleg, að vera að berjast fyrir grænum áherslum með annarri hendinni en neyða svo menn til að framleiða rafmagn með olíukötlum með hinni hendinni. Það er staða sem er algerlega óásættanleg í landi hinnar grænu orku sem við viljum kalla okkur. Vandinn er kominn upp og vandinn mun bara aukast. Ég hlýt því að leggja áherslu á það við hæstv. ráðherra að tefja ekki uppbyggingu byggðalínunnar og leggja áherslu á að fundnar verði leiðir til að lagfæra hana nú þegar.