148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni og ekki síst hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðum; hún hefur reyndar sýnt sig mjög reiðubúna til að ræða við Alþingi um stefnumótun í sínum málaflokkum.

Ég var svo heppinn að verða þess heiðurs aðnjótandi að geta, á ferð minni um Danmörku og Svíþjóð nýverið, sest niður með þarlendum og rætt um hvernig setningu orkustefnu er háttað í hvoru landi um sig. Það var mjög lærdómsríkt. Ég vil horfa á þetta dálítið stórt. Fyrir mér snýst þetta um að við þurfum fyrst að setja það niður fyrir okkur hvernig samfélag við viljum sjá á Íslandi í framtíðinni, árið 2030 eða 2040, svo að annars vegar sé miðað við stefnu um kolefnishlutlaust Ísland og hins vegar við Parísarsamkomulagið.

Viljum við að Ísland verði grænt samfélag, hafi náð kolefnishlutleysi, dregið úr innflutningi og notkun jarðefnaeldsneytis og nýti innlenda endurnýjanlega orkugjafa við rekstur samfélagsins? Slíkt er í samræmi við það sem ríkisstjórnin hefur sett fram um kolefnishlutleysi árið 2040 og uppfyllingu skuldbindinga vegna Parísarsamkomulagsins árið 2030. Þegar við höfum sæst á hvert við viljum stefna getum við snúið okkur að því að skoða hvernig við komumst þangað. Hvað þurfum við að nýta af orkuauðlindum landsins til að skapa grænt og umhverfisvænt samfélag? Hvernig getum við náð sem mestri sátt þar um, nýtt orkuna á sem umhverfisvænstan hátt? Viljum við byggja upp lítil og meðalstór fyrirtæki á ákveðnum svæðum? Viljum við tryggja betur afhendingaröryggi orkunnar?

Þegar við höfum svarað þeim spurningum setjumst við yfir það hvernig hægt er að flytja orkuna. Þurfum við að byggja upp betra dreifingarkerfi? Tengja ákveðin landsvæði betur við kerfið? Hvernig tryggjum við nauðsynleg orkuskipti í samgöngum og aðgengi að rafmagni til þeirra um allt land í atvinnulífinu, sjávarútvegi og landbúnaði?

Til þess að allt þetta sé mögulegt þarf einnig að samræma þær áætlanir sem þegar hafa verið samþykktar eða eru í bígerð; aðgerðaáætlun um orkuskipti í samgöngum, rammaáætlun, stefnu í línumálum, stefnu um flutningskerfi raforku, stefnu um uppbyggingu iðnaðar, byggðastefnu, skuldbindingar vegna Parísarsamkomulagsins, stefnu um kolefnishlutlaust (Forseti hringir.) Ísland. Allt þetta þarf að tala saman sem og fleiri stefnur og samþykktir, falla saman í það púsluspil sem samansett er það samfélag sem við viljum sjá.