148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:35]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Hegðunin sem ég ræddi áðan á sér margar birtingarmyndir. Margumræddur raforkusæstrengur er algerlega fyrirsjáanlegur sem tillaga: Notum meiri orku því að hún er til, alveg óháð öllum öðrum hagsmunum okkar Íslendinga.

Út frá þeim gögnum sem forsvarsmenn þeirrar hugmyndar hafa lagt fram stenst tillagan ekki neina skoðun, hvorki efnahagslega né eðlisfræðilega. En þótt það tiltekna verkefni falli um sjálft sig, hvort sem er vegna pólitísks viljaleysis eða annarra þátta, mun tækniþróunin halda áfram á þessa vegu. Hugmyndir koma til með að koma upp í framtíðinni sem gætu aukið orkuþörfina umtalsvert. Langtímaorkustefna verður þar af leiðandi að fela í sér spá um þróun og stefnumörkun um hversu langt við erum tilbúin að ganga.

Kostnaður við raforku er þáttur sem við verðum líka að taka mið af. Íslensk raforka hefur sögulega verið mjög ódýr á heimsmælikvarða en vegna mikilla framfara í sólarorku- og rafhlöðutækni er útlit fyrir að innan áratugar gæti íslensk fallvatnsorka og jarðvarmaorka talist tiltölulega dýr kostur miðað við önnur lönd. Það gæti hreinlega valdið því að aðstæður skapist þar sem eftirspurn eftir íslenskri orku minnki umtalsvert. Þetta atriði hefur lítið verið rætt en verður að vera hluti af sviðsmyndagreiningunni þegar við erum að tala um þessa hluti og búa til þessa framtíðarorkuáætlun.

Svo mætti nefna í þessu samhengi þátt iðnaðar almennt. Iðnaður á Íslandi er afar einsleitur og fer meginhluti raforkunnar í aðeins eina grein iðnaðar. Langtímaorkustefna kemur til með að þurfa að stuðla að auknum fjölbreytileika í hagkerfinu eða í það minnsta ekki bæta inn einhverjum forsendum sem koma til með að hefta aukinn fjölbreytileika í framtíðinni.

Nú er tíminn liðinn, afskaplega lítill tími gefst til að ræða þetta stórkostlega mikilvæga mál. Aðrir hv. þingmenn hafa komið inn á ótrúlega marga mikilvæga punkta. Ég vona bara að þetta samtal geti haldið áfram.