148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég er hugsi yfir orðaskiptum sem urðu hér í gær í þingsal milli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur. Í svörum ráðherrans, ef svör skyldu kalla, komu fram stefnuleysi og kjarkleysi ríkisstjórnarinnar og áhugaleysi og skilningsleysi forsætisráðherrans sjálfs á nauðsyn þess að endurskipuleggja fjármálakerfið á Íslandi. Það lítur út fyrir að nú ætli flokkur forsætisráðherrans, sem hefur reyndar gamla sögu í því að gefa útlendingum banka, að endurtaka leikinn með nýju bestu vinum sínum, íhaldinu, og hirða ekki um að nýta forkaupsrétt ríkisins á Arion banka. En það var að skilja á hæstv. forsætisráðherra í gær að hún vissi ekki af því að þessi forkaupsréttur væri til. Forsætisráðherra þjóðarinnar veit ekki af því að forkaupsrétturinn er til.

Nú er það næsta víst að það fyrsta sem verður gert ef Arion banki verður seldur í hendur kröfuhafa eða vogunarsjóða, sem allt lítur út fyrir að verði gert, þá verður byrjað á því að búta þennan banka í sundur, selja út úr honum verðmæti eins og Valitor. Í stað þess að verðmætin skili sér í ríkissjóð Íslands þá munu þau skila sér í vasa eigenda vogunarsjóða úti í heimi sem væntanlega hlakka yfir því.

Ef það er þannig, herra forseti, virkilega, að umfram eigið fé Arion banka, sem nægir til þess að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni, verður látið leka út úr landinu, verður látið leka ofan í vasa erlendra vogunarsjóða, þá mun þessarar ríkisstjórnar fyrir það eitt minnst um aldur og ævi fyrir ótrúlegt kjarkleysi og aumingjaskap.