148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er í meginatriðum sammála hv. þingmanni. Það er þess vegna sem mér finnst svo mikilvægt að við lögum stjórnarskrána. Það er nú bara við þetta tilefni sem ég nefni þetta ákvæði því að mér finnst það blasa við. Það kemur aftur og aftur fyrir að eitthvað gerist í stjórnmálunum, ekki endilega bara hér á Alþingi, ekki endilega varðandi eitthvert mál sem er lagt fram, sem öskrar á mig að við þurfum nýja stjórnarskrá — sem við ætluðum að taka upp skömmu eftir 1944. Það var ekkert umdeilt þá, en er umdeilt núna vegna þess að við höfum einhvern veginn fest í sessi með þá sem við höfum núna og kerfið svokallaða hefur vanist henni og er logandi hrætt við einhverjar breytingar sem það upplifir sem risavaxnar; sem eru reyndar ekki risavaxnar, alla vega ekki ef gengið er út frá frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þskj. 1111 frá 141. þingi kemur fram ákveðin takmörkun sem mig langar að nefna sérstaklega fyrst ég hef hér nokkrar sekúndur. Með leyfi forseta:

„Þó er óheimilt að framselja ríkisvald til að breyta stjórnarskránni eða mörkum íslensks yfirráðasvæðis eða til takmörkunar á mannréttindum umfram heimildir í stjórnarskrá.“

Einnig kemur fram í öllum útgáfum að þetta framsal ríkisvalds skuli ávallt vera afturkræft. Er það skýrt í núgildandi stjórnarskrá? Mér finnst það ekki vera skýrt. Við höfum sem betur fer ekki þurft að kljást hér um slík efni. En mér þætti betra ef það væri skýrt. Mér finnst betra ef borgarinn getur lesið þetta og við þurfum ekki að karpa um þetta. Aftur: Þótt hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að þetta standist stjórnarskrá — ég öfunda hv. þingmann að vera þeirrar skoðunar því að það er auðvitað auðveldara — er það samt sem áður skylda okkar að velta því fyrir okkur. Ef við náum ekki þeirri sannfæringu er það skylda okkar að koma hér og tala um það og velta því upp þegar við gætum einfaldlega, ef við hefðum þetta ákvæði í stjórnarskrá eins og mörg önnur góð sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs, sagt: Þetta er flott mál, gerum þetta, vonandi hrynur efnahagskerfið aldrei aftur. Það væru góð lok þessa máls.