148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

115. mál
[15:22]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir. Ég veit að ég fer að ákveðnu leyti út fyrir efnið en þetta tengist allt og hitað var upp í salnum í viðræðum við hæstv. fjármálaráðherra áðan. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt á hún von á því að á næstu vikum eða mánuðum, á þessu þingi, verði málið tilbúið til umræðu á Alþingi. Ástæða þess að ég spyr er að við erum náttúrlega að tala um umræðu sem töluverður hiti er í þar sem hún hefur átt sér stað, eins og í Noregi. Þetta eru bindandi ákvarðanir hjá ESA gagnvart innlendum eftirlitsaðilum. Við erum í sjálfu sér að tala um heimildir á sviði orkumála sem eru nýmæli þótt þær eigi sér fyrirmyndir í fjármálageiranum. Það er verið að útvíkka valdframsal til stofnana EFTA og svo óbeint til stofnana Evrópusambandsins. Og svo, eins og þekkt er, erum við í gegnum samninginn okkar bara áheyrnaraðili að ASE eða Evrópsku eftirlitsstofnuninni, eigum þar ekki atkvæðisrétt. Það væri gott að vita hvort við eigum von á að fá að ræða þessi mál á þingi á næstunni.