148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þessa dagana á sér stað mikil umræða um yfirvofandi kennaraskort í landinu og í gær var afar góð umfjöllun um þessa stöðu í þættinum Kveikur sem sýndur var á RÚV. Þar kom fram að aðsókn í kennaranám hefur hrunið eftir að námið var lengt upp í fimm ár. Ef þessari þróun verður ekki snúið við telja menn að skólakerfið verði óstarfhæft eftir 10–20 ár. Þetta er mjög alvarleg staðreynd og því er nauðsynlegt að bregðast hratt og vel við.

Hæstv. menntamálaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir segir nauðsynlegt að bregðast við og koma fram með aðgerðir. Þær munu koma fram með haustinu en mikilvægt er, ef vel á að takast til, að Samband íslenskra sveitarfélaga og forysta kennarastéttarinnar komi með í þá vegferð. Hæstv. menntamálaráðherra segir þessa stöðu vera stærstu áskorun sína á þessu kjörtímabili. Nú þegar er byrjað að endurskoða námslánakerfið, jafnvel með það að markmiði að breyta hluta námslána í styrk. Einnig er verið að skoða hvort hluti meistaranáms kennaranema verði launað starfsnám.

Hæstv. forseti. Jafnframt þessu tel ég mikilvægt að efla stoðþjónustu í kringum kennarann svo hann hafi meiri tíma til að sinna kennslunni sjálfri og undirbúningi hennar. Auk þessa þarf að gera átak í að bæta vinnuaðstöðu kennara, eins og tölvubúnað, til að kennarar geti unnið samkvæmt ýmsum markmiðum sem sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla.

Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á þennan stóra, mikilvæga málaflokk. Á 100 ára afmæli flokksins var menntamálastefnuhópur settur á fót og í byrjun mars mun hópurinn skila af sér tillögum að úrbótum. Hópurinn hefur fundað með hinum ýmsu hagsmunaaðilum innan kennarastéttarinnar. Það má því segja að mikil áhersla sé lögð á menntamál, bæði innan Framsóknarflokksins og ríkisstjórnar. Lögð er áhersla á að koma fram með lausnir sem virka til að geta unnið á þessum samfélagsvanda sem kominn er upp.

Þetta er aðkallandi og mikilvægt mál. Getum við ekki öll verið sammála um það?