148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

höfundalög.

36. mál
[15:52]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þetta neitt sérstaklega en mig langar til þess að koma aðeins inn á að höfundalög á Íslandi eru útbúin í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins og eru í tilskipun Evrópusambandsins um höfundarétt, sem heitir að vísu einhverra hluta vegna mjög furðulegu nafni, með leyfi forseta, „Information society directive“.

Engu að síður er í þeirri tilskipun gert ráð fyrir 20 mismunandi valkvæðum útfærsluatriðum sem hvert land ræður hvort að það útfæri. Það er ein af valkvæðum undanþágum frá höfundarétti, undanþágu vegna rannsókna og þróunar, sem eru án hagnaðarsjónarmiða. Það er svo sem gott og blessað nema það hefur ekki verið útfært með þeim hætti á Íslandi hingað til og er þetta frumvarp á vissan hátt hugsað sem nokkur bragarbót á því. Það er kannski ágætt að nefna að vegna þessara 20 undanþágna hefur skapast ákveðið vandamál innan Evrópusambandsins vegna þess að á þeim tíma þegar tilskipunin var gefin út hafði Evrópusambandið ekki heimild til þess að setja lög eða tilskipanir um höfundarétt. Það útskýrir að hluta til tilkomu nafnsins vegna þess sagt var að þetta væri til samræmingar á innri markaðnum. En þar sem þetta eru 20 valkvæðar útfærslur sem hægt væri að útfæra á fjóra mismunandi vegu hverja um sig, verða til fjórir möguleikar í 20. veldi á útfærslu. Ef maður setur það í samhengi eru það álíka margir útfærslumöguleikar og fjórum sinnum þekktur stjörnufjöldi í vetrarbrautinni okkar.

Líkurnar á því að einhver tvö Evrópulönd lendi fyrir slysni á sömu útfærslu eru hér um bil engar. En allt í góðu. Þetta er náttúrlega ein af fjölmörgum ástæðum fyrir því að höfundaréttamál eru aftur komin til umræðu í Evrópusambandinu. Nú er verið að ræða það að gagnagreiningar af því tagi sem að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi hér áðan, verði einungis leyfðar í rannsóknarstofnunum í framtíðinni. Það eru miklar deilur um það í Evrópusambandinu enda eru mjög góðar ástæður fyrir því, og vangaveltur um hvers konar aðilar geti gert það sem verið er að leggja til hér. Þá vilji ýmis fyrirtæki bjóða upp á þjónustu á borð við máltækni en líka t.d. blaðamenn.

Ég tel að nái þetta frumvarp fram að ganga núna geti skapast ákveðið fordæmi af hinu góða inn í þá umræðu sem á sér stað í Evrópusambandinu sem mun ekki ljúka næsta árið og örugglega ekki á næstu tveimur árum. En með því að fá þetta inn skapast ákveðið fordæmi fyrir því að gera hlutina á réttan hátt. Það gerist vonandi með því að útfæra þessa valkvæðu útfærslu núna. Þar með getum við nýtt okkur þann aragrúa af stjörnum og möguleikum sem Evrópusambandið gaf okkur og við getum verið fordæmi fyrir Evrópusambandið til framtíðar í þessum málaflokki.