148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[16:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að halda mig við eitthvað sem ekki hefur enn þá verið sagt, auðvitað með einni undantekningu. Það er mjög við hæfi að æðstu stofnanir framkvæmdarvaldsins séu með þessi mál á hreinu, og ekki bara opinberar stofnanir heldur líka aðrar stofnanir. Það væri mjög gott ef það væri bara sjálfsagður hluti af tilverunni að geta haldið fjarfundi og átt samskipti eins náið og mögulegt er með engum fyrirvara og í raun og veru við öll tilefni.

Mig langar hins vegar aðeins að byrja á að kynna ákveðið fyrirkomulag sem þingflokkur Pírata hefur í sambandi við tvö landsbyggðarkjördæmi, sem eru Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Píratar náðu ekki inn þingmanni í síðustu kosningum í þessum tveimur kjördæmum, því miður, en við höfum haft það lag á að við tilnefnum þingmenn innan þingflokksins sem sinna því tiltekna kjördæmi. Sem dæmi þá sinnir sá sem hér stendur Norðvesturkjördæmi, kynnir sér málefni svæðisins og fylgist með umræðum sem varða það kjördæmi. Þetta mál varðar auðvitað landsbyggðarkjördæmi sérstaklega og það er ekki síst af þeirri ástæðu sem ég tek hér til máls þótt ég hafi reyndar örfáa aukapunkta sem eru óháðir þeirri staðreynd.

Bara svo það sé sagt í leiðinni þá er það einmitt hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sem sér um Norðausturkjördæmi fyrir hönd þingflokks Pírata. Í öllum hinum kjördæmunum erum við með þingmenn og þeir sinna auðvitað sínum kjördæmum eins og þeirra er von og vísa.

Mig langar aðeins að fara út í pínulitla framtíðarmúsík. Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi áðan getur verið mikill munur á því hvort maður á samskipti við persónu í mynd eða í síma eða í texta. Eins og Facebook sannar getur texti verið algjörlega hörmulegur samskiptamáti, sér í lagi þegar komin er inn kaldhæðni eða tilfinningar sem ekki sjást auðveldlega í texta. Hið sama gildir að miklu leyti um símtöl. Ég sé fyrir mér framtíð og vona að framtíðin verði þannig að búi maður á Ísafirði eða einhvers staðar annars staðar úti á landi, og hafi þó ekki nema staðlaðan tölvubúnað og sæmilega nettengingu, helst góða auðvitað, þá sé hægt að mæta á skrifstofu opinberrar stofnunar og tala við manneskju og horfa á manneskjuna og upplifa öll mannleg samskipti í eins mikilli nánd og tæknin býður upp á. Ég held að það skipti raunverulegu máli. Það hljómar kannski eins og aukaatriði, en ég held að það skipti raunverulegu máli.

Ég veit það alla vega út frá minni upplifun að oft mæti ég í stofnanir bara vegna þess að ég vil að samskiptin séu það náin til þess að þau gagnist yfir höfuð. Ef maður hringir í einhvern er maður mun fjarlægari og vitaskuld miklu frekar þegar maður er beinlínis staðsettur á öðrum stað, í öðru bæjarfélagi eða einhvers staðar úti á landsbyggðinni og stofnunin er í Reykjavík.

Þessi þingsályktunartillaga felur í sér að við búum til eitthvert staðlað fyrirkomulag fyrir fjarfundi. Það er fyrirkomulag sem ég mundi vilja að væri staðlað í samfélagi okkar almennt, það væri bara sjálfsagður hlutur að geta haldið fund með engum fyrirvara án þess að þurfa að skipuleggja það sérstaklega. Tæknin býður kannski ekki upp á það alls staðar núna, en hún er samt komin nokkuð nálægt því. Þótt það hljómi kannski skringilega að tala um tiltekinn hugbúnað í pontu Alþingis, svolítið eins og að tala um tilteknar bílategundir, þá ætla ég samt að gera það.

Í greinargerð tillögunnar, sem ég er, nota bene, meðflutningsmaður á og þakka fyrsta flutningsmanni fyrir að bjóða það, er nefndur hugbúnaður á borð við Skype for Business, Zoom, eða GoToMeeting. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki þá tvö síðarnefndu. Ég veit hvað Skype for Business er og Skype almennt. Það leiðir huga minn að því að það er eitt svolítið mikilvægt þegar við tölum um hugbúnað, það er ekki bara aðgengi þeirra sem nota hugbúnaðinn, heldur líka aðgengi í sambandi við tölvubúnað þannig að fólk þurfi ekki að nota tiltekin stýrikerfi. Það getur verið mjög hamlandi þegar einhvern hugbúnaður er bara til fyrir ákveðið stýrikerfi. Auðvitað er oft gert ráð fyrir að allir noti Windows, sem er sem betur fer ekki tilfellið, en fólk á bara að fá að velja þann hugbúnað og vélbúnað sem því sýnist og hugbúnaðurinn á ekki að segja fólki hvað það á að nota.

Með öðrum orðum, hugbúnaðurinn ætti helst að vera það sem er kallað er opinn hugbúnaður. Opinn hugbúnaður er þannig að hver sem er getur skoðað kóðann á honum, fiktað í honum ef hann vill, og yfirleitt virkar sá hugbúnaður alltaf á öll stýrikerfi vegna þess að fólkið sem er með skrýtna stýrikerfið, eins og sá sem hér stendur, aðlagar einfaldlega hugbúnaðinn að sínum þörfum. Það er aðgengismál. Það skiptir máli.

Reyndar ætla ég að nefna sérstaklega í því sambandi, fólki til fróðleiks, að til er ágætisfyrirbæri sem heitir jitsi.org. Þar þarf ekkert nema staðlaðan vélbúnað og vafra og allt í lagi nettengingu, meira að segja virkar frekar léleg nettenging yfirleitt. Það gæti ekki verið einfaldara. Það þarf ekkert að skrá sig inn, það þarf ekkert að kaupa neitt. Maður fer einfaldlega inn og annar aðili fer inn á sömu slóð og þá er samtalið hafið. Það er í rauninni alveg svo einfalt.

Ég nefni þetta hérna vegna þess að mér finnst mikilvægt þegar farið er út í slíka stöðlun að við höfum hugann við að það skipti ekki bara máli að þetta sé einfalt fyrir einn og einn heldur að þetta sé opið, að staðlarnir séu opnir, að hægt sé að notast við hugbúnað sem er raunverulega aðgengilegur öllum. Það er í alvörunni vandamál í íslenskri stjórnsýslu að farið er allt of mikið út í lokaðan hugbúnað og sérlausnir sem er síðan ekki hægt að sleppa frá. Það er mjög algengt og mjög alvarlegt vandamál að mínu mati. Ég ætla svo sem ekki að ræða það mikið hérna. Mér finnst það bara vera hluti af þessu ef þetta á að vera þannig að fjarfundir eða -samskipti verði hluti af daglegu lífi eða eðlilegum samskiptum við stofnanir ríkisins.

Þetta er það sem ég vildi koma að. En að öðru leyti fagna ég málinu og býst fastlega við að það komist í gegn ef það fær heildarafgreiðslu.