148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

44. mál
[17:17]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum mál þingmanna Samfylkingar um greiðsluþátttöku sjúklinga. Ég vil meina að við þurfum ekki mikið að ræða það. Þessi tillaga er flutt af góðum hug og er í rauninni mjög tímabært að við tökum slíka umræðu. Raunar eigum við alltaf að vera að taka þá umræðu í þinginu því að það skiptir verulegu máli að það samfélag sem við viljum kalla velferðarsamfélag standi undir nafni og að þegnarnir trúi því í raun að þeir fái þá þjónustu sem þeir þurfa þegar þeir þurfa hana. Það er afar mikilvægt.

Ég tek undir það sem kom fram áðan að að sumu leyti mætti kannski segja að efni tillögunnar væri þrengra en efni stæðu til, en það kann að vera að þetta sé góð byrjun. Það er þó þannig að mörg verkefni sem snúa að heilsugæslunni og aðgengi að heilsugæslunni eru a.m.k. jafn mikilvæg og það að hafa hana gjaldfrjálsa. Það er til að mynda „smámál“ eins og það að allir hafi aðgang að heilsugæslulækni. Það er líka mjög stórt mál. Maður veltir fyrir sér hvort mikilvægara sé að tryggja það aðgengi en að tryggja að þeir sem þegar hafa lækni geti farið til hans eða hennar án endurgjalds.

Þingmanninum hv. Guðjóni S. Brjánssyni er líka kunnugt um að það er á stefnuskrá þeirrar ríkisstjórnar sem nú er að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga og það er vel. Ég tel að þessi tillaga sé mikilvægt innlegg í þá umræðu. Ég trúi því að hv. velferðarnefnd muni skoða það gaumgæfilega, sérstaklega þá þætti sem hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir nefndi áðan t.d. um ferðakostnað, hvernig kostnaður við ferðir jaðarsetur íbúa landsbyggðarinnar með tilliti til aðgengis að þjónustu. Það verður að segjast eins og er og ég hef sagt það áður í ræðustól Alþingis að það er ekki ásættanlegt hvernig við sem samfélag höfum snúið því máli. Við höfum einhvern veginn ákveðið að ekki sé hægt að veita alla þjónustu alls staðar. Sennilega er það í heilsutæknilegu tilliti alveg rétt, það er ekki hægt að setja upp skurðstofur hvar sem er, það er ekki hægt að setja upp flókna læknisþjónustu hvar sem er. En fyrst við erum búin að ákveða að það sé ekki hægt verðum við líka að búa þannig um hnútana að þeir sem búa á þeim stöðum og þeir sem búa fjarri þjónustunni hafi í raun jafnt aðgengi að þjónustunni, náttúrlega innan þeirra marka sem búseta þeirra leyfir, en að ríkið taki þátt í þeim kostnaði sem af þeim hlýst. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Eins og hv. þingmönnum er vafalítið kunnugt um eru núverandi stjórnvöld þegar byrjuð á þeirri vegferð að draga úr kostnaði ellilífeyrisþega. Ég vona svo sannarlega að haldið verði áfram á þeirri vegferð við næstu fjárlagagerð. Ég hlakka til að taka þátt með hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni og fleirum í velferðarnefnd í umræðu um tillöguna og hvernig við getum notað hana og efni hennar til að tryggja íbúunum betri þjónustu.