148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Já. Ég þakka fyrirsjáanlega áhugaverða umræðu og hlakka til umræðu um væntanlegt áfengisfrumvarp.

Varðandi réttinn til að bera ekki nafn, þetta er bara frábær spurning. Samkvæmt þessu hafa menn rétt til að nota stærðfræðitáknið núll eða vera með einhvern óendanleika eða tómleika í þeim táknum, ég man ekki helstu stærðfræðitáknin. Ég kannast ekki við að Mannréttindadómstóllinn hafi úrskurðað í þessu. Þetta er bara frábær spurning, hvort kennitalan ein og sér dugi. Það er spurning. Þá er maður væntanlega að undirgangast það að hún sé alltaf notuð sem kennimerki í staðinn fyrir nafnið skyldi maður ætla, eða hvað? Fínar frúr yfir miðjum aldri eins og ég eru kannski ekki alltaf til í það, en hver veit. Þetta er áhugavert. En að öllu gamni slepptu, þetta er áhugaverð umræða. Það er alveg rétt, ekki er tekið til þessa hér. Ég vonast til að nefndin ræði þetta af fullri alvöru.

Varðandi það að hægt sé að valda eða líkur séu á að einhverjar slíkar nafngiftir geti valdið börnum skaða. Miðað við það, hv. þm. Brynjar Níelsson, hvað það eru margir foreldrar sem valda börnum sínum skaða með gerðum sínum í dag, þá hallast ég að því að halda því fram að hv. þingmaður hafi bara rétt fyrir sér í þeirri framtíðarsýn. En ég er sannfærð um að barnaverndaryfirvöld séu rétti aðilinn til að grípa þar inn í frekar en mannanafnanefnd. Ég á líka mjög erfitt að sjá fyrir mér að foreldri sem er stoppað í dag af mannanafnanefnd frá því að valda barni sínu slíkum skaða sé fyrirmyndarforeldri að öðru leyti.