148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta frumvarp. Það er mjög vel flutt og rökstutt. Það var eitt sem ég hjó eftir sem ég hef haft áhuga á að undanförnu: Til hvers að hafa kenninöfn ef við fellum burt millinöfnin og gerum þau að hluta af nafninu? Af hverju ekki að hafa það líka? Ég gæti bara heitið Björn Leví en ekki Gunnarsson eða Gunnarsson væri hluti af nafninu mínu, eins og kannski verða vill eftir því sem fólk kýs.

Ég var að velta fyrir mér hvort ekki væri eðlilegt að ganga jafnvel enn lengra en er stungið upp á miðað við framsöguna hérna, það var barn og bur, einhverjar takmarkanir þar. Ég lendi alla vega oft í því að ég er með millinafnið Leví, ekki ættarnafnið. Fólk er alltaf að misskilja það sem ættarnafn. Hvaðan er Leví-ættarnafnið? Nei, ég er nefndur eftir langalangafa mínum, þetta var millinafnið hans líka, hann hét Björn Leví. Þetta er bara nafnið mitt. Það togast alltaf dálítið á í mér vandamálið á milli ættarnafna og ekki ættarnafna eða kenninafna og ættarnafna. Af hverju ekki bara hafa þetta nafn? Það er einföld spurning.