148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Takk fyrir gott andsvar. Kannski ég byrji á að svara spurningunni varðandi reglugerðina. Talað er um sektarákvæði ef fólk skráir ekki nöfn í þjóðskrá. Það er ekki verið að hugsa um að færa ákvörðunartöku um nöfn til ráðherra.

Varðandi spurninguna um muninn á eiginnöfnum og kenninöfnum þá er það einmitt útgangspunkturinn, að gefa það frjálst. Ég tengi við fyrri hlutann hjá hv. þingmanni, þ.e. áhyggjur mannanafnahefð okkar. Ég er svo hjartanlega sammála því að hún sé mikilvæg fyrir okkur. En þá liggur ágreiningurinn mögulega hjá okkur eða mismunandi sjónarhornum því að ég tel þetta jafnvel vernda hefðina betur en það að gefa þetta frjálst, þeir sem vilja viðhalda hefðinni gera það þá af fúsum og frjálsum vilja. Við erum að breytast. Samfélagið er að breytast. Áhrifin koma víða að.

Hægt er að líta til nýjasta æðis okkar Íslendinga, þ.e. fótboltalandsliðanna okkar, son og dóttir, sem ég styð heils hugar. Ég tilheyri nú dætraliðinu þótt ég sé „son“. Þannig er bara hefðin okkar. Ég hef ekki meiri áhyggjur af þessu en mörgu öðru sem skilgreinir okkur sem þjóð án þess að það sé niðurnjörvað í lög og reglur.