148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:47]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég greip einmitt líka niður í svona úrskurð fyrir nokkru síðan þegar ég var að velta málinu fyrir mér. Það var handahófskennd leit, en það hjálpaði mér mikið að skoða úrskurði mannanafnanefndar til að útskýra þetta fyrir fólki sem finnst mannanafnanefnd mjög mikilvæg nefnd. Því að þar koma úrskurðir verulega á óvart. Ekki af því að okkur finnist að það eigi að banna einhver önnur nöfn heldur af því að hún starfar ekki, held ég, eftir þeim lögum sem fólk heldur að gildi um nefndina. Það held ég að sé mesti misskilningurinn í umræðunni, að mannanafnanefndin bjargi krökkum frá stríðni vegna nafna sinna. Það er ekki raunveruleikinn. Þess vegna er áhugavert að fara inn á þessa góðu síðu til að skoða þessi íslensku nöfn og hver rökstuðningurinn er fyrir að leyfa þau eða ekki leyfa.

En við hv. þingmaður erum þá hjartanlega sammála um að við hljótum að vilja virða frelsi fólks til að leyfa því að heita það sem það vill.