148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

ráðherraábyrgð.

[10:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er mikill áhugamaður um stjórnarskrána. Á grundvelli hennar ætti þetta að liggja nokkuð í augum uppi. Við erum hér með þingbundna stjórn. Tapi ráðherrar trausti Alþingis gerist það að jafnaði að fram getur komið vantrauststillaga á einstaka ráðherra. Hv. þingmaður þarf því ekki að horfa til formanns Sjálfstæðisflokksins með það hvort einstaka ráðherrar í ríkisstjórninni starfi áfram í hans skjóli, það er vilji meiri hluta þingsins sem hefur úrslitaáhrif á hvort ráðherrar sitja í ríkisstjórn eða ekki. Þetta er þingbundin stjórn. Það er lagaumhverfið sem ég og við öll störfum við.

Ég var einfaldlega að reyna að útskýra fyrir hv. þingmanni hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á hinum pólitíska vettvangi í mínum stjórnmálaflokki. Þar geta vissulega orðið breytingar af ýmsum ástæðum. Tapi menn trausti getur það m.a. leitt til breytinga á skipan ráðherralista Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) eins og hjá öðrum flokkum og eru dæmi um það í sögunni í hinu íslenska stjórnmálalífi.