148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem þegar hefur átt sér stað hérna. En það er einn hópur sem í umræðunni liggur enn óbættur hjá garði. Það er mikil áhersla lögð á þær lagasetningar sem vísað var til áðan frá 2016, minnir mig, í húsnæðismálum, áhersla á lausnir sem snúa að uppbyggingu leiguhúsnæðis fyrir efnaminna fólk. Hv. þm. Logi Einarsson minnti á tillögur Samfylkingarinnar um uppbyggingu 5.000 leiguíbúða á hagkvæmu verði. Reykjavíkurborg hefur lagt mikla áherslu á þéttingarreiti hinum megin frá, þar sem fyrst og fremst er verið að byggja upp dýrari íbúðir. Við þekkjum þá umræðu alla. En það er í rauninni hópurinn sem er þarna á milli, venjulegt fólk, millistéttin, sem er í bölvuðum vandræðum.

Lausnir fyrir þann risastóra hóp snúa fyrst og fremst að því að koma framboðshliðinni í lag. Þetta er ekki fólk sem er að fara inn í eina af þessum litlu, hagkvæmu leiguíbúðum sem verið er að byggja upp á félagslegum forsendum. Þetta er heldur ekki fólkið sem er að fara að kaupa sér hús á þéttingarreit, einum af hinum rándýru, hvort sem það er við útvarpshúsið eða einhvers staðar annars staðar. Þetta eru bara þessar venjulegu fjölskyldur sem þurfa þak yfir höfuðið. Það er býsna langt til lands fyrir þann hóp í dag eins og umræðan er og þær lausnir sem verið er að ræða.

Þess vegna vil ég brýna hæstv. ráðherra aftur til að setja mesta orku í það strax að vinna bug á þessum framboðsvanda. Hvaða leiðir sem færar eru til þess, hvort sem það er samstarf við sveitarfélög í nágrenninu eða hver sem leiðin er, þetta er fremst í röðinni. Það eru hinar venjulegu fjölskyldur sem eru í allt eins miklum vandræðum og þær sem efnaminni eru. (Forseti hringir.) Þeir sem meira hafa, hjá þeim leysist þetta.